137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðild.

[15:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki svona einfalt. Ástæðan er þessi: Í þessu tilviki verður það ekki þessi þingsalur hér sem fær það hlutverk að staðfesta samninginn. Það er ódýrt fyrir þá þingmenn sem hér sitja að segja: Ja, fyrir mitt leyti verður hin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla bindandi. Nei, það verður nýtt þing, það verða aðrir þingmenn sem munu á endanum fá það hlutverk að staðfesta samninginn. Málið er því ekki svona einfalt. Það er ekki hægt að binda þetta þing með slíkum yfirlýsingum vegna þess að á Íslandi er stjórnarskráin þannig að það mun þurfa að kjósa að nýju. Þá er augljóst að þeir þingmenn sem sækja umboð sitt til þeirra þingkosninga eru bundnir af samvisku sinni einni og sínum málflutningi fyrir þær þingkosningar. Þeir eru ekki bundnir af yfirlýsingum þingmanna frá fyrra þingi. Fyrir mitt leyti er því alveg skýrt að jafnvel þó að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla hafi farið fram er ekki augljóst að hið nýja Alþingi (Forseti hringir.) muni fylgja henni. Það er alls ekki þannig og menn eiga ekki að láta það hljóma eins og að þessir tveir hlutir sé sambærilegir. (Gripið fram í: Ertu að hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins?)