137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðild.

[15:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér finnst hv. þingmaður vera að flækja þetta einhvern veginn óskaplega fyrir sér. Ég held að við þekkjum öll í þessum sal hvernig stjórnarskrárbreytingar ganga að óbreyttu fyrir sig. Þær verða að gerast þannig að þing samþykki stjórnarskipunarlög, það er rofið, nýtt þing er kosið og það þarf að staðfesta breytinguna óbreytta til að hún öðlist gildi. Þannig hefur það alltaf verið, frá lýðveldisstofnun. Menn hafa að vísu rætt um að gera þar breytingar á eins og kunnugt er en þær hafa ekki náð fram að ganga.

Ég endurtek bara að það er ekkert einasta vandamál fyrir Alþingi og stjórnmálaflokkana í landinu að ganga þannig frá þessu máli að niðurstaða þjóðarinnar gildi. Ef þjóðin t.d. hafnar samningi sem væri borinn undir hana í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu einhvern tíma undir lok þessa kjörtímabils lægi bara fyrir að það þing mundi ekki hreyfa við málinu meir því að það ætlaði að hlíta niðurstöðu þjóðarinnar. Fari það á hinn veginn, stjórnarskipunarlögum yrði breytt, er það bara nákvæmlega eins og alltaf er, (Forseti hringir.) það er í höndum nýkjörins þings að gera upp við sig hvort það staðfestir hann eða ekki, þar á meðal hvort það vill ekki líka hlíta niðurstöðu þjóðarinnar.