137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

stóriðjuframkvæmdir.

[15:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var þetta sem ég óttaðist, það eru engin almennileg svör frá hæstv. ríkisstjórn þegar kemur að þessum málaflokki. Ríkisstjórnin staðfestir ekki fjárfestingarsamninginn vegna Helguvíkur og tefur og setur þar með meiri óvissu í þær framkvæmdir en nauðsyn ber til. (Gripið fram í: Það er rangt.) Það er rétt. Ríkisstjórnin boðaði hér á föstudaginn 7,5 milljarða í auðlindagjald og auðlindaskatt á atvinnulífið á Íslandi í skýrslu frá fjármálaráðuneyti. Eru það góð skilaboð til þeirra sem gætu hugsað sér að fjárfesta í iðnaði á Íslandi, í uppbyggingu á stóriðju, að við skulum leggja á 7,5 milljarða til viðbótar á þessar greinar í framtíðinni?

Ríkisstjórnin ætlar að afnema loftslagsákvæðið sem fékkst í Kyoto-viðræðunum, staðfestingu og viðurkenningu á sérstöðu Íslands til framleiðslu á náttúruvænni raforku sem er nýtanleg m.a. til stóriðju. Og ríkisstjórnin er með allar áætlanir og alla vinnu á ís (Forseti hringir.) varðandi frekari virkjanir sem geta hleypt lífi í atvinnulífið.