137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

stóriðjuframkvæmdir.

[15:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður er kunnur áhugamaður um stóriðju. Ég man í fljótu bragði ekki eftir því að hann tali um annað atvinnulíf eða aðrar atvinnugreinar (Gripið fram í.) nema einstöku sinnum hvalveiðar já, ég ætlaði nefnilega að nefna það. (Gripið fram í.) Það er út af fyrir sig sjónarmið að það eina sem geti orðið okkur að liði í atvinnulegu tilliti og hvað verðmætasköpun og útflutningstekjur snertir séu álver og hvalveiðar. (Gripið fram í.) Þá er það bara atvinnustefna Jóns Gunnarssonar og vel um það. (Gripið fram í: … hæstv. ráðherra … um álver.)

Varðandi svar við spurningunni hélt ég að hv. þingmaður vissi að fjárfestingarsamningurinn er til skoðunar hjá ESA, hefur alltaf legið fyrir að þangað færi hann til þess að ljóst væri að hann stæðist þær samkeppnisreglur og reglur um ríkisstuðning sem ESA tekur út. Málið er því nákvæmlega í því ferli sem því ber að vera samkvæmt lögum okkar og reglum. Ég held því að það sé ekkert annað gera en (Forseti hringir.) að biðja hv. þingmann að bíða eftir því að niðurstaða fáist þar og þá liggur málið fyrir. (Gripið fram í.) Það er afgreitt að öllu öðru leyti.