137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar.

[15:29]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sennilega rétt sem hv. þingmaður sagði í lokin um að búið væri að ræða um Suðurlandsveg í 10, 15 eða 20 ár. Ég er búinn að sitja hér í 10 ár og ég minnist þess að alla stjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var lítið rætt um Suðurlandsveg, það er alveg hárrétt.

Hins vegar hefur verið tekið til við það núna og ákvörðun liggur fyrir um hvernig að málinu skuli standa. (Gripið fram í.) Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, Suðurlandsvegur er sá vegur sem er með langmestu umferð á Íslandi og þar verða flest slys. Þarna er hvað brýnast að hefja framkvæmdir, m.a. út frá umferðaröryggismálum, að aðgreina akstursstefnur. Að því er unnið.

Hv. þingmaður talaði áðan um það þegar þessi ákvörðun var sett fram en unnið er að undirbúningi undir fyrsta kaflann sem átti að vera á þessari leið sem hefðbundin ríkisframkvæmd. Sú vinna hefur verið í gangi en öll vitum við hvernig ástandið er í peningamálum þjóðarinnar, (Forseti hringir.) við höfum þurft að skera niður framkvæmdir til samgöngumála. Við höfum ekki hætt við neitt en það er spurning hvað það mun dragast.