137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

útlánareglur nýju ríkisbankanna.

[15:32]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Hún var reyndar í allmörgum liðum og ég veit ekki hvort mér vinnst tími til þess að svara þeim öllum, en vil í upphafi máls míns benda á að þótt bankamál almennt heyri undir viðskiptaráðuneytið hefur fjármálaráðuneytið einnig talsvert um þessi mál að segja sem handhafi hlutabréfsins í bönkunum.

Hvað sem því líður voru þetta ekki samræmdar reglur af ríkinu fyrir alla ríkisbankana ef við köllum þá því nafni. Það kann að vera að bankarnir fái nánari leiðbeiningu í þá veru ef af því verður að yfir þá verður sett Bankasýsla sem m.a. mundi væntanlega móta línur í grófum dráttum um hvert skuli stefna í rekstri þeirra. Þá er auðvitað útlánastefnan stór hluti í því. Ríkið hefur ekki sett neinar tæmandi reglur í smáatriðum um það hvernig skuli standa að þessu þangað til. Það eru ekki sömu reglur fyrir alla og bankarnir hafa nokkurt svigrúm til að móta sér sjálfstæða stefnu. Það má segja að það sé í sjálfu sér jákvætt, a.m.k. frá samkeppnissjónarmiði, að viðskiptavinir hafi ákveðið val á milli banka og þeir séu ekki allir steyptir í sama mót hvað útlánareglur varðar.

Því er hins vegar ekki að neita að það eru alls ekkert allir sáttir við það hvernig þessum málum er fyrirkomið í bönkunum og ég hef fengið kvartanir, að vísu ekki formlega inn á borð til mín, en ég hef heyrt af óánægju og heyrt kvartanir þannig að ég veit að það eru margir óánægðir með margt, m.a. kvarta samkeppnisaðilar sáran undan þeirri fyrirgreiðslu sem önnur fyrirtæki fá. Það verður auðvitað að skoða þau tilvik hverju sinni, (Forseti hringir.) en ég sé ekki að hægt sé að búa til reglur svo öllum líki.