137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[15:53]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vekur furðu að þetta mál sé komið fram núna. Maður hefur það á tilfinningunni að það hafi átt að lauma þessu inn í þingið bakdyramegin og veltir fyrir sér alveg eins og hv. þm. Ólöf Nordal af hverju meiri hluti efnahags- og skattanefndar sé að leggja málið fram en ekki fjármálaráðherra sjálfur og veltir upp þeirri sjálfsögðu spurningu hvort fjárútlát ríkisins þurfi ekki að vera samþykkt í fjárlögum. Kannski að hv. þingmaður geti svarað þessari spurningu.

Í annan stað: Nú var ákveðið í tíð síðustu ríkisstjórnar eða þarsíðustu réttara sagt, sem Samfylkingin var aðili að, að bankarnir greiddu út til þeirra sem áttu í peningamarkaðssjóðunum um 203 milljarða. Við erum að samþykkja hér heimild til þess að styrkja bankana um allt að 290 milljarða og maður veltir því fyrir sér hvort ríkisstjórnin hafi farið yfir þau mál mjög gaumgæfilega. Það þýðir ekki að ríkissjóður geti endalaust komið fjármálafyrirtækjum til bjargar. Kannski gæti hv. þingmaður upplýst hvort það hafi kannski verið eins og mann hefur grunað að útlátin til peningamarkaðssjóðanna hafi verið með samþykkt þáverandi stjórnvalda.

Í þriðja lagi: Við höfum rætt Icesave mjög mikið og stundum hefur því verið haldið fram að lán frá Norðurlöndunum hangi þar á spýtunni og að við fáum þau ekki, en hér er komin einhvers konar heimild til þess að fá lán frá Norðurlöndum upp á 230 milljarða. Ég hélt að þetta héngi allt á spýtunni varðandi Icesave. En kannski er það rétt sem utanríkisráðherrar þessara landa hafa sagt, þvert gegn orðum hæstv. fjármálaráðherra, að það hangi (Forseti hringir.) einfaldlega ekki á spýtunni gagnvart Icesave.