137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Þetta mál ber að með nokkuð skömmum fyrirvara og maður skyldi þá halda um eðli slíks máls að það væri ekki stórmál í sjálfu sér en hér ræðum við mjög stórt mál. Hér er verið að tala um það að fela framkvæmdarvaldinu heimild til að taka lán, allt að 290 milljarða, m.a. til að leggja þeim fjármálafyrirtækjum sem stofnuð hafa verið á grundvelli laga nr. 125/2008, til eigið fé.

Mér finnst það undarlegt, frú forseti, í ljósi þess hversu umfangsmikið mál þetta er og skiptir í raun og veru miklu máli og varðar endurreisn íslensks efnahagslífs að sjálfur fjármálaráðherrann, sem ég tel að eigi að vera við þessa umræðu, skuli ekki leggja þetta frumvarp fram sem 1. flutningsmaður. Það skyldi þó ekki vera af því að það geti verið óþægilegt fyrir formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að stuðla að því að Landsvirkjun verði efld, m.a. til að geta haldið áfram að virkja — sem ég fagna mjög svo en er nú ekki alveg í anda þeirrar grænu atvinnuuppbyggingar sem margir samfylkingarmenn og vinstri grænir töluðu um í aðdraganda síðustu kosninga. Ég veit ekki hvort það er skýringin því hér er vissulega um mjög stórt mál að ræða. Ég vildi gjarnan að hæstv. fjármálaráðherra upplýsti okkur í þessari umræðu um stöðu mála, hver hin raunverulega staða er. Það hefur verið upplýst og við höfum lesið um það í fjölmiðlum að búið er að fá lán frá einhverjum Norðurlandaþjóðanna. Hæstv. fjármálaráðherra hefur talað í Icesave-málinu fyrir því að 5,5% vextir séu nú bara glæsileg lausn og mjög hagstæðir. Ég mundi gjarnan vilja heyra frá hæstv. ráðherra hver vaxtaprósentan er á þeim lánum sem við höfum nú þegar sótt, m.a. til Norðurlandaþjóðanna, í ljósi þess að 5,5% Icesave-vextir eru svo glæsileg staða.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra — af því að ef þetta verður samþykkt er Alþingi Íslendinga að veita ráðherranum og ríkisstjórninni heimild til þess að setja hundruð milljarða inn í ríkisbankana — hvernig það gangi að meta eignasafn bankanna og hvort ekki sé alveg öruggt við þinglega meðferð þess máls að þingnefndir og þingmenn fái raunverulegt aðgengi að því þannig að við hv. þingmenn getum lagt mat á það hver raunveruleg eignasöfn þessara banka eru og hver raunveruleg fjárþörf er og kannski síðast en ekki síst, hvað sé skynsamlegt að leggja mikla fjármuni inn í bankana. Ég tel í ljósi þess að Alþingi hefur fjárveitingavaldið að þingmenn eigi að fá mjög greiðan aðgang að þessum upplýsingum áður en við skuldbindum íslenskan almenning til að setja hundruð milljarða inn í íslenska bankakerfið. Mikilvægt er að við tökum ígrundaðar ákvarðanir og eins og ég segi þá er Alþingi með þessari samþykkt að afsala sér heilmiklu af því valdi sem það var kjörið til að hafa með höndum, þ.e. fjárlagavaldinu.

Frú forseti. Við hljótum að velta því fyrir okkur í öllu þessu samhengi hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi einhverja heildarmynd af stöðu þjóðarbúsins. Hvað skuldar íslenskur almenningur? Ég lagði fram fyrirspurn, sem vonandi verður dreift í dag, til hæstv. samgönguráðherra um stöðu sveitarfélaganna í landinu. Það er alveg ljóst að á síðasta ári voru sveitarfélögin íslensku rekin með hundruð milljarða kr. tapi og ljóst er að þetta ár verður íslenskum sveitarfélögum mjög erfitt og að skuldir íslenskra sveitarfélaga munu að öllu óbreyttu hækka um milljarðatugi á þessu ári, varlega áætlað. Hvað eru skuldir íslenskra sveitarfélaga? Skuldir íslenskra sveitarfélaga eru í raun og veru skuldir almennings, hvers einasta Íslendings og þegar við ræðum um heimildir til handa ráðherra til að skuldsetja ríkissjóð enn frekar ofan á þá fyrirætlun stjórnarflokkanna að samþykkja Icesave-samkomulagið, sem mun hafa mjög slæm áhrif fyrir íslenska þjóð til áratuga litið og færa lífskjör Íslendinga aftur um marga áratugi verði það samþykkt að óbreyttu, þá er mikilvægt að við höfum einhverja heildarmynd. Ég spyr hæstv. ráðherra: Getur hann gefið okkur upplýsingar um það hver staða sveitarfélaganna er, hversu mikið lán þeirra hafa hækkað á síðustu mánuðum og í raun og veru hvað hver Íslendingur skuldar eins og staðan er í dag?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því, talandi um Icesave-málið sem á að ræða í þessari viku, hvort hæstv. ráðherra hafi virkilega ekki gert greiðslumat til handa íslenska ríkissjóðnum áður en hann samþykkti að skrifað yrði undir það samkomulag. Aðstoðarmaður hæstv. ráðherra upplýsti það á þingflokksfundi framsóknarmanna um daginn að nú væri verið að vinna að greiðsluáætlun á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Frú forseti, íslensk yfirvöld hafa nú þegar skrifað undir stærstu skuldbindingu í sögu þjóðarinnar án þess að hafa gert sér grein fyrir því hver greiðslugeta okkar er, því eins og aðstoðarmaður hæstv. ráðherra sagði á þingflokksfundi framsóknarmanna um daginn þá er nú verið að vinna að því hver greiðslugeta þjóðarinnar er. Mér finnst alveg með ólíkindum að ráðherra í ríkisstjórn Íslands skuli hafa getað liðið það að skrifað yrði undir Icesave-skuldbindingarnar — reyndar með fyrirvara um samþykki Alþingis — án þess að slíkt lægi fyrir, án þess að við vitum hvort við gætum staðið undir þeim skuldbindingum sem ræddar verða í vikunni og ég vona svo heitt og innilega að verði ekki samþykktar. Mér líður í raun og veru illa, frú forseti, sem þingmanni yfir þessum skorti á upplýsingum. Við spyrjum spurninga á nefndarfundum, við spyrjum spurninga í þingsal og því miður er mjög lítið um svör í þeim efnum.

Ég verð að segja eitt, frú forseti, hafandi starfað hér í 6 ár, að mál af þessu umfangi skuli komast fyrir á einni A4-blaðsíðu. Greinargerðin er nokkur orð og kannski lýsir þetta því, í ljósi þess að ég tel nú alveg fullvíst að — þó að hv. þingmenn í meiri hluta efnahags- og skattanefndar, hv. þm. Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram, Álfheiður Ingadóttir og Ásmundur Einar Daðason hafi lagt þetta fram — sé undirrótin að þessu frumvarpi sem við ræðum hér komin úr fjármálaráðuneytinu og ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það sé ekki raunin að þetta eigi sér upphaf í ráðuneyti hans. Þá er eðlilegt að spurt sé, ef þetta á sér upptök úr fjármálaráðuneytinu, hvers vegna hæstv. fjármálaráðherra er ekki flutningsmaður að málinu. Það er alveg með ólíkindum að sá aðili sem á að halda utan um ríkissjóð og rekstur hans á milli þess sem Alþingi ákveður fjárlög, skuli ekki vera flutningsmaður að þessu frumvarpi og mér finnst í raun og veru alveg með ólíkindum að þetta mál skuli komast fyrir á einu A4-blaði. Við þurfum, hv. þingmenn, að beita okkur fyrir því að efnisumfjöllun um þetta mál, þessi stóru mál sem við erum að afgreiða á Alþingi verði ítarleg og að við fáum þær nauðsynlegu upplýsingar sem við þurfum að hafa í höndunum til að samþykkja frumvörp sem þessi, sem við ræðum hér.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra líka að því hvort það verður þannig, eins og í öllu þessu Icesave-dæmi, að við þingmenn munum horfa á það í fréttum Stöðvar 2 eða Ríkisútvarpsins hvaða plögg liggja þar til grundvallar, að fjölmiðlar hér á landi fái fyrst að frétta og við alþingismenn fylgjumst með upplýsingagjöf ríkisstjórnarinnar í gegnum fjölmiðla, eins og almenningur sem reyndar hefur kosið okkur til að verja sína hagsmuni. Við eigum að verja hagsmuni almennings og þess vegna eigum við rétt á því að fá allar þær upplýsingar sem við óskum eftir í þessu máli og öðrum. Ég hefði haldið að í greinargerð með máli sem þessu hefðu, í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur þegar fengið lán frá Norðurlöndunum, alla vega átt að koma fram upplýsingar um efnisákvæði þeirra samninga, að við vissum hver greiðslubyrðin verður af þeim, hvort einhver vaxtamunur verður á þeim greiðslum sem við þurfum að greiða, á þeim vöxtum sem þessi lán bera, og þeim vöxtum sem við getum fengið innan lands. Þannig að mér finnst vanta alla heildarmynd á þetta, frú forseti. Ég tel að þetta þurfi að fá mjög mikla umfjöllun og tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað fyrir því að hv. fjárlaganefnd á að sjálfsögðu að fara mjög gaumgæfilega yfir þessi mál. Ég sé að hv. formaður nefndarinnar er í salnum og ég mun fara fram á það þegar þetta mál kemur til hv. efnahags- og skattanefndar að málinu verði vísað til umfjöllunar í fjárlaganefnd og við munum fá umsagnir frá þeirri nefnd áður en við afgreiðum þetta frumvarp sem við ræðum hér.

Frú forseti. Ég vil segja að mér finnst það með hreinum ólíkindum að sjálfur fagráðherrann — í ljósi þess að þetta er greinilega ættað úr hans eigin ráðuneyti — skuli ekki vera 1. flutningsmaður að þessu máli. Þó að það hafi ágætt yfirbragð yfir sér að hv. þingmenn flytji þetta mál þá er ég þess fullviss að þær tölur sem við ræðum hér eru eingöngu komnar úr ráðuneyti hæstv. fjármálaráðherra og þess vegna er mjög óeðlilegt að hæstv. ráðherra skuli ekki mæla fyrir þessu frumvarpi en ég er ánægður með það að hann skuli alla vega vera viðstaddur umræðuna. En ég ítreka og sé að hæstv. ráðherra hefur vonandi skrifað niður eitthvað af þeim spurningum sem ég lagði fram en ég hefði kannski ekki þurft að leggja þær spurningar fram ef greinargerðin með þessu frumvarpi hefði verið ítarlegri því hún er smánarlega stutt og miðað við umfang málsins sýnist mér að undirbúningurinn hafi ekki verið nægjanlegur að mínu viti og þess vegna hvet ég til þess að Alþingi fái aðgang að öllum upplýsingum sem snerta þessi mál og önnur tengd skuldum þjóðarbúsins því mér finnst vanta og skorta á það hjá stjórnvöldum og líka hjá okkur alþingismönnum að við höfum einhverja heildaryfirsýn yfir það hvað íslensk þjóð skuldar og að hvaða leyti við getum sem alþingismenn skuldbundið íslenskan almenning til áratuga. Okkur vantar svör við þeim mikilvægu spurningum.