137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki svo að hér sé efnislega eitthvað nýtt á ferðinni heldur er hér eingöngu verið að stemma af lántökuheimildir ríkissjóðs eins og nú liggur fyrir að þær geti mestar orðið á árinu, til að tryggja að örugglega séu fullnægjandi heimildir til staðar til að hefja þau lán sem legið hafa fyrir frá því í vetur og gengið er út frá með bæði samstarfsáætlun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og reyndar að mestu leyti í forsendum fjárlaga og greinargerð með fjárlagafrumvarpi og nefndarálitum í haust að yrðu tekin á þessu ári. Annars vegar eru þau gjaldeyrislán sem legið hafði fyrir síðan í nóvember að yrðu tekin eða stefnt væri að að taka og nú liggja upphæðir þeirra fyrir og hafa verið staðfestar af lánveitendum okkar, kannski með einni undantekningu, þ.e. lánin eru tilbúin frá Norðurlöndunum fjórum og Pólverjar hafa staðfest sína upphæð en enn er kannski óljósara um það hver endanleg upphæð láns frá Rússlandi kann að verða.

Þegar kemur að bönkunum er nákvæmlega um þá tölu að ræða sem gengið hefur verið út frá allan tímann, þ.e. allt að 385 milljarðar kr. sem farið geta í endurfjármögnun bankakerfisins en þó liggur fyrir að nokkrar líkur og jafnvel umtalsverðar líkur eru á að þetta verði nokkuð lægri upphæð. Ég tek það fram að hér er um mögulegar heildarlántökur ríkisins að ræða þannig að fullnægjandi lagaheimildir séu örugglega til staðar og ég tel að það sé gott að þær komi fram nú. Það hefði ekki endilega þurft á því að halda fyrr en í haust því það er ólíklegt að ríkið hefji öll þessi lán fyrr en síðar á þessu ári, í lok þess eða jafnvel ekki fyrr en á næsta ári. En það er að sjálfsögðu rétt og skylt að hafa fullnægjandi heimildir til staðar og ég geri ráð fyrir að löggjafinn vilji það.

Ég er þakklátur hv. þingnefnd fyrir að taka að sér að flytja þetta frumvarp. Það á sér þá forsögu að það var kannað hvort þessar heimildir mætti fella inn í bandorm, frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það var talið fara betur á því að hafa þetta í sjálfstæðu máli og þingnefndin bauðst til að flytja það, sem er alvenjulegt að þingnefndir í samstarfi við viðkomandi fagráðuneyti taki að sér að flytja mál t.d. við aðstæður sem þessar þegar skammt lifir eftir þings.