137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:22]
Horfa

Valgeir Skagfjörð (Bhr):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram í dag. Það er mín tilfinning að menn tipli pínulítið á tánum í kringum þá spurningu sem ég veit að almenningur veltir fyrir sér og hún er einfaldlega þessi: Hversu langt er íslenska þjóðin frá gjaldþroti? Þeirri spurningu var varpað fram á fundi í efnahags- og skattanefnd en þá var spurt að því hversu miklar líkur væru á því að Ísland yrði gjaldþrota, einföld spurning í sjálfu sér. Það fékkst auðvitað ekki viðhlítandi svar við þeirri spurningu en menn veltu fyrir sér hvort hægt væri að teikna upp einhvers konar leikmynd sem segði fyrir um í versta falli, í besta falli og síðan eitthvað þar á milli.

Ég er með tölur fyrir framan mig sem mér þykja uggvænlegar. Ég er ekki vanur að hugsa í slíkum upphæðum eins og ég hef fyrir framan mig núna og alla jafna grúska ég ekki mikið í tölum nema einu sinni á ári þegar ég fer yfir skattframtalið mitt og geri skil gagnvart skattyfirvöldum. En ég bið menn um að velta fyrir sér í þeirri umræðu sem fer fram núna þessum gríðarlegu lántökum ríkissjóðs sem standa fyrir dyrum. Mögulegar skuldir og vaxtagreiðslur ríkissjóðs hljóma einhvern veginn þannig ef öll þau lán yrðu tekin sem stendur fyrir dyrum að taka, opinberir aðilar eru með 533 þúsund eða tæplega 600 þús. millj., lántaka sem tengist Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er upp á 650 þús. millj., lántaka vegna Icesave er upp á aðra 650 þús. millj. Samtals gerir þetta 1.833 þús. millj. og vaxtagreiðslur af þessu er um 97,1 milljarður á ári. Þetta eru gríðarlega háar tölur. Svo kemur lántaka vegna halla á ríkissjóði upp á 160 þús. millj., lántaka vegna Seðlabanka Íslands upp á 270 milljarða, lántaka vegna nýju bankanna upp á 385 þús. millj. Þetta gera samtals — ég vona að haldi fólk enn fókus — 815 þús. millj. kr. Vextir af því, 5% vextir á ársgrundvelli gera 40,8 milljarða kr. Samtals mögulegar skuldir ríkissjóðs eru tæplega 3.000 milljarðar og vextir af því eru 132,5 milljarðar kr. Þetta er auðvitað bara stjarnfræðilegt. Ég skil ekki alveg svona upphæð, ég verð að viðurkenna vanmátt minn að þessu leyti. Skuldirnar gætu hreinlega orðið 176% af vergri landsframleiðslu sem fjármálaráðuneytið áætlar að verði 1.496 þús. milljarðar árið 2009. Gott fólk. Ég spyr: Stöndum við ekki frammi fyrir því að við erum einfaldlega gjaldþrota? Ég óska eftir svörum við þessari spurningu. Þetta brennur á fólki út um allt samfélagið, þetta brennur á mér. Og þetta sem maður heyrir allt í kringum sig í þessari umræðu, ég fæ þá tilfinningu að menn séu að tipla á tánum í kringum þessa staðreynd og þori bara ekki að viðurkenna að Ísland er — ef það er ekki gjaldþrota að þá séu a.m.k. miklar líkur á því að Ísland verði gjaldþrota. Lönd hafa áður orðið gjaldþrota. Hér hefur verið rætt mikið um Argentínu, Nýfundnaland varð gjaldþrota 1950 og var innlimað í Kanada, við þekkjum kannski þá sögu. Ég vil bara fá að vita hvað gerist ef Ísland er gjaldþrota og sætir gjaldþrotameðferð eins og hvert annað fyrirtæki sem verður gjaldþrota eða eins og hvert annað heimili sem verður gjaldþrota og þau verða gjaldþrota hvert á fætur öðru á næstunni. Ég óska eftir útskýringum og svörum við þessu. Mér finnst alveg skelfilegt að horfa upp á þessar tölur og þessar gríðarlegu stjarnfræðilegu skuldir. Ég skil ekki hvernig við eigum að geta staðið í skilum með þetta, ég skil það bara ekki og ég óska því eftir útskýringum.