137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að ég verði aldrei sakaður um það að hafa gert lítið úr vandanum sem við stöndum frammi fyrir. Ég hef haft miklar áhyggjur af þróun íslensks þjóðarbúskapar sl. 5–7 ár, hef skrifað talsvert um þau mál og á í fórum mínum ýmislegt frá fyrri árum þar sem ég var farinn að hafa af því umtalsverðar áhyggjur hvernig heildarskuldastaða þjóðarbúsins var að þróast. Menn hugguðu sig þá við að benda alltaf á ríkissjóð, sem vissulega var rétt að á þessum árum var hann að borga upp skuldir, en aðalvandinn var sá að þjóðarbúið í heild sinni var rekið með bullandi halla út á við og aðrar máttarstoðir samfélagsins á þessum tíma, heimilin, atvinnulífið og sveitarfélögin söfnuðu skuldum. Staðan var því aldrei eins góð og menn voru að reyna að telja sér trú um á hinu svokallaða góðæristímabili og það gerir auðvitað okkar vanda meiri. Jafnvel hinn skuldlausi ríkissjóður eða þar um bil lendir í þeirri stöðu á örfáum mánuðum að fá á sig skuldir sem nema meiru en heilsárslandsframleiðslu, sem er auðvitað rosalegt. Það er engu að síður að okkar mati alls ekki óviðráðanlegt. Við getum tekið sem dæmi Japana, sem eru með á þriðja hundrað prósent í sambærilegum hlutföllum, og lönd eins og Ítalíu og Grikkland sem eru með miklar byrðar af þessu tagi. Það sem mestu mun auðvitað skipta er hvernig okkur gengur að auka verðmætasköpun og tryggja að þjóðarbúið og hagkerfið hafi tekjustreymi og verðmæti til að ráða við þessar skuldir. Það mun taka langan tíma að borga þær niður og þá þarf að stýra þeim málum vel. Það kemur inn á það sem hér er spurt um um greiðsluáætlun eða skuldastýringu. Það verður í einhverjum mæli að endurfjármagna eitthvað af þessum lánum því við ráðum ekki við að greiða þau öll upp hratt og á gjalddögum. Þetta verður krefjandi verkefni á komandi árum en ég trúi því að það muni takast. Ég segi bara við hv. þingmann, ég stæði ekki hérna ef ég tryði því ekki að Ísland komist í gegnum þetta.