137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst af öllu að benda á, af því að mér finnst það ekki hafa komið skýrt fram, hvað áætlaðar skuldir ríkisins eru í árslok 2009. Ég vil benda á skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir 2009–2013. Þar kemur skýrt fram að áætlaðar skuldir ríkisins 2009 eru 1.807 milljarðar. Þar er svokölluð „footnote“ á og þegar maður les þær skýringar þá stendur: Skuldbindingar vegna Icesave eru ekki taldar með skuldum ríkissjóðs í töflunni. Lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Noregi eru því til Seðlabanka og því ekki talið með skuldum ríkissjóðs. Og þar að auki eru áfallnir ógreiddir vextir, þeir eru meðtaldir ógreiddir vextir ríkissjóðs, en hér erum við að tala um alveg himinháar skuldir, langtum hærri en hefur nokkurn tíma komið fram áður. Það hefur yfirleitt verið talað um 1.500 milljarða í þessu samhengi en hér er þetta bara svart á hvítu að staðan er langtum verri.

1.500 milljarðar eru 102% af vergri landsframleiðslu. Þá skulum við fara í reikningskúnstir, reikna það saman hvað Icesave-skuldirnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðslánið og Norðurlandalánið eru við þessar skuldbindingar ríkissjóðs árið 2009 og finna út hvað það eru mörg prósent af vergri landsframleiðslu. Ætli við séum ekki komin upp í hátt í 300% þá, ef ekki vill betur. Þetta eru grafalvarlegar tölur sem eru að koma hér fram og svo kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir: Þetta er svona lítið Japan og við hljótum að komast í gegnum þetta. Mér finnst þetta ekki boðlegt, frú forseti. Það er ekki boðlegt að bera málið upp með þessum hætti á Alþingi og ég er alveg undrandi á því að talað skuli vera fyrir þessu svona.

Það er verið að spyrja um uppruna þessa frumvarps, ég get upplýst þingheim og landsmenn um það. Ég leysti hv. þm. Birki Jón Jónsson af í efnahags- og skattanefnd í síðustu viku. Þá var búið að troða þessu sem er komið í frumvarpsdrög núna inn í bandorminn, á milli 2. og 3. umr., í 2. og 3. umr. inn í bandorminn átti að skuldsetja ríkissjóð bara fram hjá ef engum skyldi hafa dottið í hug að líta á þetta.

Merkilegasti hluturinn í þessu er að þá voru upphæðirnar sem átti að taka að láni 790 milljarðar og lántökuheimild til Landsvirkjunar var 70 milljarðar. Nú er búið að lækka þetta niður í að lántökuheimild fyrir Landsvirkjun er um 50 milljarðar og lántökuheimildir fyrir ríkissjóð um 290 milljarðar. Svo virðist vera að málin séu unnin með svo miklum hraða og svo hroðvirknislega uppi í fjármálaráðuneyti að heimildir samkvæmt 1. og 4. tölulið fjárlaga 2009 hafi gleymst í útreikningunum og það sett inn á eftir. Það var því eins gott að málið var stoppað í bandorminum þannig að heimildin hefði ekki farið 600 milljörðum fram úr áætlun.

Svo er ég líka búin að efast um það — ég er búin að fletta stjórnarskránni og það eru svo hörð og ákveðin lagaákvæði í henni hvað varðar það að binda ríkissjóð og landið allt að ég vil benda þingmönnum á að lesa 40., 41. og 42. gr. en í 42. gr. segir, með leyfi forseta:

„Fyrir hvert reglulegt Alþingi skal, þegar er það er saman komið, leggja frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár, sem í hönd fer, og skal í frumvarpinu fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld.“

Hér er t.d. einmitt eitt ákvæði sem sótt er í stjórnarskrána verðandi skuldbindingar ríkisins. Hér er ekki verið að fara eftir því. (Gripið fram í.) Nei, hæstv. fjármálaráðherra biður í fyrsta lagi hv. efnahags- og skattanefnd að tala fyrir þessu máli, sem ég skil náttúrlega ekki, þar sem þetta frumvarp til laga kemur beint úr fjármálaráðuneytinu og aðstoðarmenn hæstv. fjármálaráðherra fylgdu því úr hlaði í efnahags- og skattanefnd. Þá eru lagaheimildirnar sóttar hingað í neðstu línu í þessu frumvarpi eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson benti á að er svo stutt að það er til skammar, það er eitt blað og þar stendur:

„Fordæmi eru fyrir því að viðbótarlánsfjárheimilda sé aflað með almennum lögum, sbr. lög nr. 60/2008.“

Og þau lög eru raunverulega bráðabirgðalögin sem voru gefin út í hruninu. Nú eru nokkurs konar bráðabirgðalög orðin fyrirmynd að almennri lagasetningu á Alþingi. Ég hef bent þingheimi á það og landsmönnum að hér er réttarríkið í hættu. Þessi ríkisstjórn veður yfir allar reglur og þær umgengnisvenjur sem þetta Alþingi hefur farið eftir síðan það var stofnað. Ég vara við þessu.

Svo hef ég óskað eftir því að hæstv. fjármálaráðherra væri í salnum meðan ég talaði því ég þarf að beina spurningu til hans. Heldur frú forseti að það sé hægt að láta kalla hann inn?

(Forseti (ÞBack): Hæstv. fjármálaráðherra er í hliðarsal.)

Þakka þér fyrir, frú forseti, þá er það ákveðin spurning sem ég ber fram til hæstv. fjármálaráðherra. Aðstoðarmaður hans kom á fund hv. efnahags- og skattanefndar, kynnti fyrir okkur drög að frumvarpinu sem átti að koma inn í bandorminn en er nú orðið að sérfrumvarpi. Mig langar sérstaklega að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvernig hann túlkar það að norska lánið skal vera bankalán á milli seðlabankanna, norski seðlabankinn lánar íslenska seðlabankanum en varðandi hin Norðurlandalánin eru þau frá ríki til ríkis. Ég óska hér og nú eftir því að hæstv. fjármálaráðherra geri grein fyrir muninum á þessu tvennu og svari því jafnframt í leiðinni hvort það geti verið að Seðlabanki Íslands sé svo illa staddur fjárhagslega og það séu svo margir kröfuhafar sem sæki á hann kröfur eða hvort gjaldeyrisvarasjóðurinn sé svo lítill og aumingjalegur að þjóðirnar í kringum okkur sem ætla að lána okkur fjármagn treysti ekki Seðlabanka Íslands.