137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst óþarfi að vera með þessi ummæli í garð Seðlabankans. Hann hefur nóg á sinni könnu þó að ekki sé talað til hans með þessum hætti. Ég held að Seðlabankinn þurfi seint á þeirri hjálp að halda. Þetta á sér þær einföldu skýringar að það er lánveitandinn sem hefur úrslitaorð um það í hvaða formi lánið er veitt. Í tilviki Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur var það ósk viðkomandi ríkja að þetta væru lán beint frá ríki til ríkis. Seðlabankinn er í öllum tilvikum vörsluaðili lánsins og milligönguaðili en í tilviki Noregs var það ósk Norðmanna að það væri norski seðlabankinn sem lánaði seðlabankanum íslenska, norski seðlabankinn lánar með ábyrgð norska ríkisins og íslenski seðlabankinn tekur á móti láninu með ábyrgð íslenska ríkisins. Það er á þessu nánast enginn munur í sjálfu sér nema þetta er að ósk lánveitendanna hvernig þetta er gert.

Hvað varðar framkvæmd og stöðu er á þessu enginn munur, enginn. Enda eru ríkin og seðlabankarnir í raun eitt í þessum efnum.