137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyrði ekki margar spurningar í máli hv. þingmanns og ætla ekki að elta ólar við útúrsnúning eða þvælu sem þar kom fram. Bara þingtíðindanna vegna, svo það sé á hreinu í orðaskiptum okkar hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, þá sagði ég ekki að skuldir yrðu ekki til þegar lán eru tekin. Ég sagði að skuldir yrðu ekki til þegar farið væri að takast á við að borga þær, þ.e. skaði sem er skeður, tjón sem er orðið verður ekki til þegar menn loksins horfast í augu við það og fara að takast á við að vinna úr því. Það er orðið til áður. Það er til bóta í umræðunum að menn horfist raunsætt í augu við það. Afleiðingar efnahagshrunsins á Íslandi koma ekki til sögunnar þegar við hefjum að takast á við að sigrast á erfiðleikunum. Þær eru orðnar staðreynd, (Gripið fram í.) þær eru áföll sem þjóðarbú okkar hefur orðið fyrir, skuldbindingar sem eru á okkur fallnar og þær hverfa ekki, hvernig sem menn reyna að tala þær út úr heiminum (Gripið fram í.) — tala þær út úr heiminum með einhverjum kúnstum.

Bara svo það sé alveg á hreinu, af því að hv. þingmaður hefur greinilega ekki heyrt það sem ég sagði í byrjun umræðunnar, að hér er ekki verið að fara fram á heimildir til neinnar nýrrar lántöku, engrar. Hér er bara verið að stemma af lántökuheimildir ríkissjóðs þannig að þær séu örugglega nægjanlegar innan ársins til að rúma þau lán og þær stærðir sem legið hafa fyrir meira og minna síðan í haust og í vetur að væru á ferðinni. Þetta eru nákvæmlega sömu tölur og lagt er upp með í samstarfsáætlun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (VigH: Já, við hann en ekki þingið.) sem legið hefur fyrir síðan í haust að væri áætlað að gæti að hámarki farið í endurreisn bankakerfisins og það eina sem er nýtt hér eru aðeins rýmri lántökuheimildir handa Landsvirkjun til að hún geti eftir atvikum endurfjármagnað sig eða ráðist í framkvæmdir innan ársins.