137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur enn ekki gert grein fyrir því hvað á að gera við þessa peninga. Hæstv. ráðherra heldur því fram að þetta sé svona til vara ef ske kynni. Ég verð að biðja hæstv. ráðherra að afsaka það að ég treysti þessari ríkisstjórn ekki fyrir heimildum umfram það sem hún getur útskýrt hvað hún ætlar að gera við, því að þannig hefur þessi ríkisstjórn talað að hún virðist ekki hafa neinn skilning á upphæðunum sem um er að ræða. Þegar farið var í Icesave-viðræðurnar var lagt upp með það að ekki ættu að falla á okkur svo og svo háar upphæðir. Það hlyti að vera hægt að semja um það að samið yrði á þeim nótum að íslenska ríkinu og framtíðarefnahag þess væri ekki ógnað. Annað kom á daginn svo að hæstv. ráðherra hlýtur að skilja að ekki er hægt að ætlast til þess að þingið afhendi endalaust auðar ávísanir sem ríkisstjórnin getur svo farið með.

Ég hlýt að gera kröfu til þess að hæstv. fjármálaráðherra útskýri hvernig stendur á því að nú er enn talað um að setja 385 milljarða inn í bankana þrátt fyrir að ráðherrann og hæstv. viðskiptaráðherra hafi marglýst því yfir að þessa upphæð muni ekki þurfa. Hvers vegna er verið að bæta þessum 290 milljörðum við fyrri heimildir? Hvers vegna telur ríkisstjórnin sig þurfa þessar miklu heimildir?