137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009. Það hefur komið hér fram hvernig þetta mál ber að. Það átti í upphafi eða á föstudaginn var að setja þetta inn í bandorminn á milli 2. og 3. umr. en við það var hætt vegna athugasemda minni hluta eða stjórnarandstöðunnar í efnahags- og skattanefnd.

Hæstv. fjármálaráðherra segir að það sé eðlilegur hlutur að nefndir flytji hér mál af þessu tagi, þ.e. frumvörp til viðbótarlánsfjárheimilda og að það hafi verið gert í gegnum tíðina. Ég verð hins vegar að rifja það upp að það hefur verið þannig í gegnum tíðina að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki alltaf verið sammála þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð þá, á þeim tíma, þannig að hann getur svo sem ekki alltaf skotið sér á bak við það. Ég velti hins vegar fyrir mér hver sé ástæðan fyrir því og mér rennur svo í grun að það sé vegna þess að menn hafi bara ekki áttað sig á þessu máli fyrr, það hafi bara verið með þeim hætti að menn í fjármálaráðuneytinu hafi hreinlega ekki áttað sig á þessu fyrr en á þessum tímapunkti að það væri þörf á að leggja fram frumvarp og fá þetta umboð frá Alþingi. Það held ég að sé raunverulega ástæðan. Ég held það.

Svo maður komi sér þá kannski að aðalatriðunum þá verð ég að segja það fyrir mína parta sem á sæti í fjárlaganefnd og er ekki búinn að sitja þar lengi, en þó nokkra fundi, að ég er gríðarlega hugsi yfir þeim vinnubrögðum sem eru viðhöfð hér á vegum Alþingis, frú forseti. Ég er í raun ekki farinn að átta mig á því hvernig menn ætla að halda utan um allt það sem hér er í gangi. Það hefði verið eðlilegra að mínu viti að fjármálaráðherra hefði flutt og kynnt fyrir fjárlaganefnd þá viðbótarþörf upp á þessa 290 milljarða sem hér er og kynnt það og flutt síðan frumvarpið sjálfur. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, sem er reyndar ekki löng og er fljótlesin — en ég ætla þó samt að lesa hér tvær línur úr henni sem eru þá um það bil einn þriðji hennar. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Í annan stað er lagt til að ríkissjóði verði veitt 290 milljarða kr. viðbótarheimild til lántöku umfram þá heimild sem ríkissjóður hefur skv. 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2009 ...“

Þetta getur ekki verið skýrara finnst mér að það er verið að fá þarna viðbótarheimild til að taka frekara lán.

Það er líka mjög dapurlegt, eins og hefur komið hér fram í máli margra hv. þingmanna, að það liggja í raun ekki fyrir eðlilegar skýringar á því hvert þetta eigi að fara nákvæmlega. Jú, þetta á að vera með þeim hætti að ef eitthvað óvænt kemur upp á þá hafi menn heimild. Ég verð að segja, frú forseti, að mér hefur ekki fundist vera nein töf á því að koma málum hér í gegnum þingið því að þessu þingskjali var dreift í morgun og það er verið að afgreiða það núna þannig að þetta tekur nú ekki langan tíma þannig að ég velti því fyrir mér hvernig þetta er.

Annað sem mig langar að velta hér upp er það hvernig menn ætla að fara að því að framfylgja fjárlögunum og eins hvort þeir sjái fyrir sér að við náum einhvern tíma utan um þetta vandamál okkar. Það koma hér í ljós á degi hverjum alls konar upplýsingar og bara frá því að ég settist á þing hafa skuldbindingar vegna Icesave hækkað — menn voru að tala fyrst um að þetta gætu verið kannski 70 milljarðar. Nú liggur fyrir að það séu 350 milljarðar eða 400 eða 200. Það veit ekki nokkur maður vegna þess að upplýsingunum á eftir að dreifa eða við eigum eftir að heyra þær í fréttunum þannig að ég velti því fyrir mér. Eftir að hæstv. viðskiptaráðherra talaði hér í dag þá er ég gríðarlega hugsi yfir því hvort sú ríkisstjórn sem hér situr geri sér alveg fullkomlega grein fyrir því sem hér er á ferðinni.

Fyrst hæstv. fjármálaráðherra er hér í húsi og er kannski að hlusta þá langar mig að nefna það, vegna þess að ég held að það sé mjög mikilvægt á tímum sem þessum, að við ættum að styrkja fjárlaganefndina. Við verðum að styrkja fjárlaganefnd. En þetta er ekki einn af þeim hlutum sem við gerum það með, með því að taka svona í gegnum meiri hluta efnahags- og skattanefndar. Við verðum að styrkja fjárlaganefndina og láta hana hafa þau tæki sem hún þarf til þess að geta fylgst með og séð til þess að farið sé eftir fjárlögum eða gefið ábendingar um hvernig eigi að bregðast við því eins og þetta er í dag, frú forseti, er þetta algjörlega bara galið.

Í fyrsta lagi vorum við á þingfundi hér fyrir klukkutíma síðan að samþykkja lokafjárlög fyrir árið 2007. Þetta segir kannski allt um það sem við erum að vinna. Svo er líka annað: Ef menn hafa eitthvað komið nálægt rekstri, hvort heldur sem er bara litlu fyrirtæki eða sveitarsjóði eða hverju sem er, þá eru þeir með svokölluð rekstrarplön. En það virðist algjörlega skorta hér því menn geta tekið svona ákvarðanir um fleiri tuga milljarða lántökur eða eitthvað, hvað sem það er. Að menn skuli þá ekki vera með eitthvað sem heitir bara rekstrarplan og heildaryfirsýn yfir stöðu ríkissjóðs. Ef við höfum það ekki og gerum okkur ekki grein fyrir því þá mun þetta bara fara allt til andskotans. Það er bara þannig. Því fyrr sem menn átta sig á því því betra. Við tökum hér ákvarðanir um milljarða á milljarða ofan og það veit enginn neitt. Hvers vegna liggur það ekki fyrir að hv. Alþingi geti fengið um það upplýsingar hvað hver og ein ákvörðun þýðir í raun og veru í heildarniðurstöðu rekstrar ríkisins því öðruvísi náum við aldrei utan um málið eins og það er?

Frú forseti. Ef menn stofna örlítil fyrirtæki þurfa þeir að skila inn til bankanna rekstraráætlunum sem gera ráð fyrir öllu hinu ómögulega og mögulega. En hér erum við ekki að gera það. Það er nánast bara getið í eyðurnar. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að ég tel að það sem gerðist við þetta hér var að menn voru bara ekki farnir að átta sig á því að þetta þyrfti að leggja fram, annars hefði þetta komið fram með bandormi eins og hefur verið bent á hér af hv. þingmönnum.

Ég get ekki sleppt því að nefna það — og kannski er eðlilegt að velta því líka fyrir sér hér í ljósi þessarar umræðu — hvernig þetta blessaða tónlistarhús varð til inn í fjárlögin. Ég hef nú aðeins verið að lesa mér til um það. Það kemur fyrst sem ein lítil málsgrein, viðbótarheimild inn í fjárlög og við sitjum uppi með þessa ófreskju í dag. Ég held að við verðum að læra af mistökum fyrri ára og koma að þessu eins og verið sé að reka alvörufyrirtæki, ef ég má nota þau orð, frú forseti, en ekki bara taka ákvarðanir um frá degi til dags og halda fram fullyrðingum sem standast engan veginn eins og hæstv. viðskiptaráðherra gerði hér í dag.

Mig langar að spyrja líka að öðru ef hæstv. fjármálaráðherra kemur hér upp á eftir og er kannski að hlusta. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við verðum að fara að framleiða. Við verðum að fara að búa til störf og við verðum að fara að framleiða og búa til gjaldeyri en ekki eingöngu að setja lög um það hvernig við eigum að eyða gjaldeyri sem við eigum ekki til því að það er það sem við erum að gera. Við erum alltaf að ráðstafa einhverjum gjaldeyri sem við bara eigum ekki til. Það liggur fyrir og ég hef kallað eftir því en hef ekki fengið svar við því enn þá — það er liðinn rúmur mánuður, það eru liðnar fimm vikur síðan hæstv. sjávarútvegsráðherra tilkynnti það erlendis að hann hygðist skera niður þorskkvótann. En það hefur ekki komið svar við því hérna enn þá. Það væri mjög fróðlegt ef hæstv. fjármálaráðherra mundi vilja upplýsa okkur um það ef hann vissi eitthvað um það hvernig það mál stæði. Þetta er nú umhverfið sem við lifum í. Eins og hefur verið bent á hérna margoft af hendi margra þingmanna er jú upplýsingaskyldan okkar og eftirlitsþátturinn mikilvægur í störfum Alþingis.

Ég ítreka enn aftur — og mér finnst það mjög mikilvægt — að fjárlaganefnd skuli ekki hafa aðgang að ríkisbókhaldinu sem er keyrt inn í einn sarp. Hvers vegna getur fjárlaganefnd ekki fengið aðgang að því bókhaldi? Mér er sagt að það sé margbúið að biðja um það en ekki hefur verið orðið við því. Þá velti ég fyrir mér, frú forseti, hver í raun eftirlitsþáttur fjárlaganefndar sé. Er fjárlaganefnd bara upp á punt eins og svo margt annað hér? (Gripið fram í: Já.) Það kannski er þannig. Ég hafði bara gert mér vonir um annað. Það er þá ekki nema eitt að gera fyrir mann, að hætta að mæta þar á fundi ef það hefur engan tilgang nema bara að samþykkja eitthvað sem er löngu búið að ákveða, jafnvel fyrir mörgum árum síðan.

Ég held að við verðum að fara að taka til hendinni með þetta og allra síst megum við við þessu á þeim tímum sem nú eru. Við verðum að standa saman og vinna okkur út úr þessari kreppu. Ég tek alveg undir það sem fjármálaráðherra sagði. Skaðinn er skeður. Ég er algjörlega sammála honum í því og hv. þm. Pétri Blöndal. En við verðum að standa saman og vinna okkur úr þessu og til þess að við getum gert það þá verða þeir sem eru í stjórnarandstöðu að fá að hafa eitthvað um málin að segja, hafa að minnsta kosti gögn og geta verið upplýstir um þær ákvarðanir sem þeir verða að taka.