137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga sem bæði ber að með sérkennilegum hætti, finnst mér, og er ekki laust við að málatilbúnaður allur sé mjög sérstakur. Mér þykir gleðilegt að sjá loksins að það eru a.m.k. tveir af flutningsmönnum tillögunnar í hliðarsal núna að hlusta og geta þá kannski svarað einhverjum af þeim spurningum sem hæstv. fjármálaráðherra er að skjóta sér undan að svara því mér sýnist á öllu að hann ætli sér ekki að svara þeim spurningum sem til hans hefur verið beint. Mun ég því beina spurningum einnig til a.m.k. 1. flutningsmanns þess frumvarps sem hér er til umræðu.

Í fyrsta lagi veltir maður fyrir sér: Af hverju í ósköpunum er þetta mál lagt fram með þessum hætti? Hvað er það í þessu sem hæstv. fjármálaráðherra vill ekki kannast við? Hvers vegna er það þannig að hann afhendir nánast, eins og hefur verið upplýst, eða fulltrúi hans kynnti hérna frá skattanefnd, frumvarp sem nefndin svo flytur? Af hverju flytur ráðherrann ekki frumvarpið? Maður hlýtur að spyrja sig af hverju það er.

Í öðru lagi hafa ekki komið nein svör við þeim spurningum sem hafa verið settar fram varðandi ákveðna liði, til hvers óskað er eftir ákveðnum lánsheimildum, og því verður að svara. Það er ekki nóg fyrir hæstv. ráðherra eða þingmenn að standa í ræðustól og segja að þeir stæðu ekki hér ef þeir tryðu ekki að þetta gengi, það þýðir ekkert að bjóða fólki upp á slíkt. Þetta snýst um miklu meira en að reyna að gera sig trúverðugan eða eitthvað þess háttar. Hér er um hagsmuni þjóðarinnar að ræða.

Það er mjög athyglisvert að í þeirri skýrslu sem hæstv. ráðherra vitnaði sjálfur í áðan — sem á að fjalla um á morgun — og eins og hefur verið bent á, að væntanlegu Icesave-skuldbindingar, lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Noregi eru ekki teknar með í reikninginn. Þó að þau séu til Seðlabankans er Seðlabankinn vissulega með sína kennitölu. Maður veltir fyrir sér af hverju þetta er ekki tekið með. Er þá ekkert mark takandi á því plaggi sem við erum að ræða hér? Er ekkert mark takandi á þessu plaggi, þessari skýrslu? (Gripið fram í: Ekkert.) Til hvers er þá verið að leggja þetta fram? (Gripið fram í: Hætt við.) Ég held að þessi ríkisstjórn og allt þetta mál sé sett fram af — ja, ég veit ekki hvað ég á að kalla það, þetta er hvorki fugl né fiskur, ég held að það sé mjög vægt til orða tekið.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Ásbjarnar Óttarssonar áðan varðandi hlutverk fjárlaganefndar í þessu öllu saman. Það er alveg ljóst að fjárlaganefndin er einhvern veginn höfð til hliðar hjá þessari ríkisstjórn, sú mikla nefnd og sú mikla ábyrgð sem hún ber. Þeir sem þar eru eiga ekki að fá að koma að þeim málum sem mestu skipta, sýnist mér. Því var mjög ánægjulegt að heyra að hv. þm. Birkir Jón Jónsson ætlar að óska eftir því að nefndin gefi álit sitt á þessu.

Það er mjög mikilvægt, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom inn á áðan, að þingið sé í raun styrkt og þar af leiðandi að fjárlaganefnd sé styrkt. Framkvæmdarvaldið hefur frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum nánast valtað hér yfir þingið. Málum er hent inn og það er komið fram við Alþingi, eins og einhver orðaði það einhvers staðar, ég man ekki hvar, frú forseti, eins og þetta sé einhvers konar afgreiðslustofnun eða lúgusala eða eitthvað slíkt. Þannig kemur framkvæmdarvaldið fram við Alþingi og það er gjörsamlega óþolandi.

Fremstur í flokki, fremstur meðal jafninga, vil ég kannski segja, fer hæstv. fjármálaráðherra sem hefur þrátt fyrir ítrekaðar óskir ekki komið með neinar haldbærar upplýsingar, ekki neinar upplýsingar inn í þingið varðandi t.d. Icesave, varðandi þau gögn sem menn eru að vísa til um það mál, rökstuðning í því máli. Hann sér hins vegar ástæðu til þess, hæstv. ráðherrann, að kalla fulltrúa hóps, sem ég held að heiti Raddir fólksins, á sinn fund og síðan hafa tölvupóstar borist manna á milli um þetta stóra mál, en það er ekki verið að sýna þinginu eða þingmönnum þessi gögn. Hvað á þetta að þýða, hvers konar vanvirðing er þetta við þingið? Þessi ríkisstjórn á ekkert nema skammir skildar fyrir hvernig hún kemur fram við Alþingi.

Það komu fram spurningar áðan varðandi upphæðir sem eru nefndar í þessu frumvarpi. Það er með ólíkindum að hæstv. fjármálaráðherra skuli tala eins og þetta sé bara ekkert mál, að þetta sé bara alvanalegt að hér sé verið að efna eða standa við eitthvað gamalt eða uppfylla einhver skilyrði. Eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti á, er um að ræða viðbótarheimild upp á 290 milljarða kr. og því hefur ekki enn verið svarað til hvers á að nota þá peninga, til hvers eru þessir 290 milljarðar? Úr því að fjármálaráðherra fer á hlaupum frá því að svara þessum spurningum ætla ég að spyrja formann efnahags- og skattanefndar, hv. þm. Helga Hjörvar: Til hvers eru þessir peningar, til hvers á að nota þá 290 milljarða sem koma þarna allt í einu inn?

Ég vil einnig spyrja hv. þingmann, einnig vegna þess að fjármálaráðherra er að hlaupa frá því að svara því: Hver vegna þarf þessa 385 milljarða inn í bankana núna þegar búið er að lýsa því yfir að það þurfi ekki, hvað hefur breyst?

Síðan get ég ekki látið hjá líða að koma aðeins inn á orð viðskiptaráðherra því að í þessu frumvarpi og svo mörgum öðrum erum við alltaf að tala um trúverðugleika Íslands og hér hefur stjórnarandstaðan verið gagnrýnd jafnvel fyrir það að með gagnrýnni röddu sé verið að tala Ísland niður. Svo leyfir hæstv. viðskiptaráðherra sér að segja það á opinberum vettvangi að Ísland verði eins og Kúba norðursins. Ef einhver er að gjaldfella trúverðugleika og traust á einhverju landi þá er það þessi ágæti hæstv. ráðherra. Ég velti því fyrir mér hvernig staða hans í ráðuneytinu er, hvernig staða hans á Íslandi er þegar hann fer opinberlega og traðkar þannig niður orðspor Íslands. Þessi ráðherra hlýtur að þurfa að velta fyrir sér hvort hann sé hreinlega hæfur í starfi sínu. Þetta er algjörlega óábyrgt tal, það er ekki hægt að segja annað.

Að endingu vil ég taka undir það sem menn hafa sagt um að framlagning þessa máls sé með þeim hætti að maður bara hálfpartinn hlær að þessu, því að við erum búin að vera að tala í dag um frumvarp til laga sem er lagt fram af meiri hluta efnahags- og skattanefndar og mestan hluta þessa tíma sem við erum búin að tala um þetta sat fjármálaráðherra í salnum og svaraði fyrir, samt er hann ekki einu sinni á frumvarpinu. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta sé nýja taktíkin hjá hæstv. ríkisstjórn, að mál sem eru óþægileg, þ.e. framkvæmdarvaldinu, sé hent í löggjafarvaldið, meiri hluta löggjafarsamkomunnar, hv. þingmenn stjórnarflokkanna, og þeim sagt að það sé betra að þeir fari með þetta svo að það komi ekki eitthvað á flibbann hjá ráðherrunum. Er þetta virkilega þannig? Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort þetta sé ný stefna, hvort við eigum eftir að sjá þetta í fleiri málum.

Hér er um stórmál að ræða. Hér er verið að tala um hundruð milljóna kr. lánveitingar til Íslands á sama tíma eða á svipuðum tíma og við erum með skýrslu fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum sem að mínu viti hlýtur að vera marklaust plagg því inn í það eru ekki teknar hugsanlegar 700–1.000 milljarða skuldir vegna Icesave, og svo erum við með einhvers konar frumvarp til þess að auka lántökur enn þá meira. Á hvaða vegferð er þessi ríkisstjórn, hvernig mun þetta enda, hverjar verða heildarskuldir ríkisins þegar upp verður staðið? Ég bara spyr. (Gripið fram í: 3.000 milljarðar.) Hér er kallað fram í 3.000 milljarðar. Ef það er svoleiðis hlýtur að þurfa að reikna þessa skýrslu upp, það hlýtur að þurfa að gera það. Hvaða forsendur eru þetta?

Enn á ný kalla ég eftir upplýsingum um á hverju þetta byggir. Fremst í skýrslunni er vísað í þjóðhagsspá og ýmislegt annað en ekkert af þessu er marktækt þegar inn í þetta vantar hundruð, jafnvel þúsund milljarða. Það hefur komið fram að það er ekki til nein áætlun um það hvernig við ætlum að greiða þetta væntanlega Icesave-mál, sem ég vona fyrir okkur, fyrir íslenska þjóð, að verði ekki samþykkt á því formi sem sá hryllilegi samningur er, þá er ekki verið að taka neitt tillit til þess í þessum áætlunum ríkisstjórnarinnar til ársins 2013. Það frumvarp sem hér er verið að fjalla um er ekki til þess að bæta þar úr.