137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég hef skilið svör hv. þingmanns rétt er staða bankanna þannig að þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar veiti ekki af þessum 385 milljörðum inn í þá til að hægt sé að koma þeim aftur á flot. Fyrri yfirlýsingar um að þeir séu svo vel staddir og eignasöfnin þar af leiðandi svo góð og sterk standast því ekki. Það hlýtur að vera hægt að álykta með þeim hætti að bankarnir séu miklu verr staddir en gefið var í skyn. Það er því rétt að kalla eftir því að þingið og þingmenn fái upplýsingar um raunverulega stöðu þeirra. En þær hafa ekki borist þingmönnum enn þá, þrátt fyrir ítrekaðar óskir höfum við ekki fengið nein gögn um raunverulega stöðu bankanna eða eignasafns þeirra þannig að ef ég skil svar hv. þingmanns rétt þá vantar töluvert mikið eða jafnvirði þessara 385 milljarða upp á að hægt sé að koma þeim á flot.

Varðandi svarið við á hvaða kjörum þessi lán eru þá annaðhvort er þingmanninum það ekki alveg ljóst hver þau eru eða þá að hann telur ekki heppilegt að þau séu rædd í þingsal því ef ég skildi hann rétt þá mæltist hann til þess eða ætlaði að upplýsa efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd um hver þau væru. Ég vil hreinlega fá svar við því hvort það sé þannig að kjörin séu með þeim hætti að það sé ekki vænlegt að upplýsa þau í þingsal Alþingis því við sem ekki sitjum í þessum nefndum eigum að sjálfsögðu rétt á að fá þær upplýsingar eins og allir aðrir. Vissulega getum við borið okkur eftir því hjá þingmönnum okkar í þessum nefndum en mér finnst eðlilegt að það sé hreinlega upplýst hérna. Ég veit ekki annað en þessi ríkisstjórn tali um að allt sé uppi á borðinu og allt augljóst og það beri að upplýsa þjóðina um stöðu þessara mála. Hver eru þessi kjör?