137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns langar mig til að spyrja frú forseta hvort hæstv. fjármálaráðherra sé væntanlegur í salinn, hvort það verði ekki gerð gangskör að því að fá hann inn í umræðuna.

(Forseti (RR): Starfsmenn þingsins munu athuga hvar hæstv. fjármálaráðherra er staddur.)

Virðulegi forseti. Þó að manni finnist þetta svona grátbroslegt þá er þetta kannski ekki hlægilegt. Við erum að ræða grafalvarlegt mál og hæstv. fjármálaráðherra kemur sér undan að svara þeim fjölmörgu spurningum sem að honum var beint í fjölmörgum ræðum og það er alvarlegt mál. Til að mynda velti ég því fyrir mér, vegna þess að að undanförnu höfum við verið í fjárlaganefnd að vinna með halla upp á 153 milljarða, að það er í rauninni verið að bæta 140 milljörðum við þann halla. Það er grafalvarlegt mál. Maður er farinn að ræða um milljarða á milljarða ofan eins og þetta séu bara einhverjir smápeningar. Menn átta sig ekki á því að það var aukið til samgöngumála upp á 17 milljarða. Það er í rauninni sá peningur sem fer í allar vegaframkvæmdir á landinu á einu ári, var um 11 milljarðar ef ég man þetta rétt, allar vegaframkvæmdir, gangaframkvæmdir sem menn treysta sér ekki til að fara í eru inni í þeirri tölu. Svo ræðum við milljarða á milljarða ofan á eins og þetta séu einhverjir smápeningar.

Ég velti því fyrir mér og aðrir þingmenn bentu mér á að þetta frumvarp þeirra er á einni síðu en ef þú opnar þá er ekkert. Það er bara eyða og maður spyr sig hvort þetta sé ekki bruðl í þeim niðurskurði og sparnaði sem á að fara fram innan þingsins eða hvort það hafi hreinlega gleymst að prenta greinargerðina vegna þess að greinargerðin er þrjár málsgreinar, allt í allt. Þetta er eiginlega að verða svo vandræðalegt, frú forseti, að það hálfa væri miklu meira en nóg en kannski frú forseti geti upplýst mig hvort fjármálaráðherra sé væntanlegur.

(Forseti (RR): Starfsmenn þingsins hafa komið skilaboðum áleiðis en svör liggja ekki fyrir um hvort hæstv. ráðherra sé væntanlegur.)

Þá er það væntanlega þannig að hæstv. ráðherra nær ekki í endann á þessari umræðu. Ég get samt lofað honum því að við þingmenn Framsóknarflokksins munum halda þessari umræðu lifandi og við munum ásamt öðrum stjórnarandstöðuþingmönnum, veit ég, krefjast svara um hver kjörin eru á lánum frá Norðurlöndunum.