137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[18:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þátttöku í umræðu um þetta ágæta mál sem nú gengur til efnahags- og skattanefndar sem mun síðan senda það til umfjöllunar í hv. fjárlaganefnd. Það er um að gera að hv. þingmenn setji fram spurningar og kalli eftir upplýsingum um hvaðeina sem þeim leikur hugur á að vita og varðar málið með einum eða öðrum hætti. Sumu af því höfum við svarað hér við umræðuna og sumu kannski nokkuð gróflega en ég fullvissa hv. þingmenn um að þeir munu fá mjög nákvæmar upplýsingar um einstök atriði í umfjöllun þeirra þingnefnda sem ég áður nefndi. Til þess er leikurinn auðvitað gerður eins og ég hef lýst að greiða fyrir því að á þeim stutta tíma sem eftir lifir þings hafi þingnefndirnar svigrúm til að fara ofan í málið og skoða þær heimildir sem verið er að veita.

Um leið og við köllum eftir svörum og nánari upplýsingum er það um leið ábyrgð okkar við núverandi aðstæður að gæta þess að vekja ekki upp óþarfaáhyggjur eða ótta eða hræðslu og það hefur auðvitað ekki verið ásetningur nokkurs manns í þessari umræðu. Ég vil þess vegna undirstrika að þær lánsfjárheimildir fyrir ríkissjóð sem við erum að fjalla um snúa að verkefnum sem við þekkjum, verkefnum sem við höfum áður fjallað um og verkefnum sem við vitum að þarf að fjármagna og höfum lengi vitað. Á morgun mun okkur gefast gott tækifæri til að fara yfir hina stóru mynd í ríkisfjármálunum í umfjöllun um skýrslu hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar um þau efni næstu missiri og ár og hvernig mæta á þeim stóru verkefnum sem þar eru. Þær lántökur sem hér eru undir eru náttúrlega lántökur sem mönnum hefur verið ljóst að fara þyrfti út í og má auðvitað margar rekja til hrunsins sem hér varð í október sl. Þar er eins og ég hef tvívegis áður farið yfir fyrst um að ræða 250 milljarða er snúa að ríkissjóði en menn þekkja þann hallarekstur sem er á ríkissjóði bæði á yfirstandandi ári og fyrirsjáanlega á næsta ári.

Í öðru lagi erum við að fjalla um 385 milljarða heimild vegna bankanna. Það er sömuleiðis stærðargráða sem menn hafa gert ráð fyrir út frá áætlaðri stærð á efnahag bankanna og hefur verið þekkt töluvert lengi. Sömuleiðis erum við síðan að fjalla um lánin frá Norðurlöndum og lánin frá Póllandi og Rússlandi hvers lánakjör ég nálgaðist lauslega áðan. Ég þori satt að segja ekki að fara með nákvæmlega eftir minni en geri einfaldlega ráð fyrir að við fáum fram lagðar upplýsingar um í báðum nefndunum og getum fjallað betur og nákvæmar um við 2. og 3. umr. málsins, en þar er annars vegar um að ræða 230 milljarða heimild og hins vegar 85 milljarða heimild. Samtals eru þessar heimildir upp á 950 milljarða kr. sem eru auðvitað gríðarlegar tölur og því miður eru í fjárlögum yfirstandandi árs aðeins heimildir fyrir 660 af þessum 950 milljörðum og þess vegna nauðsynlegt að heimildirnar séu til staðar.

Ég held að það sé full ástæða til að fara vel yfir málið, bæði í umræðunni eins og gert hefur verið í dag og síðan í umfjöllun nefndanna milli umræðna og loks aftur við 2. og 3. umr. Við höfum í meiri hluta hv. efnahags- og skattanefndar fyrst og fremst átt frumkvæði að því að flytja málið inn í þingið þannig að hér gæfist gott svigrúm til umfjöllunar um málið jafnvel þó að sum þessara verkefna séu knýjandi og brýnt að hægt sé að ganga í sem allra, allra fyrst.