137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[18:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar hitti akkúrat naglann á höfuðið þegar hann talaði um að fólk væri orðið óttaslegið, almenningur væri orðinn hræddur. Þetta eru vinnubrögðin til að hræða fólk og gera það óttaslegið, að hafa allt undir borðinu og upplýsa ekki um neitt. Við þingmenn Framsóknarflokksins höfum staðið hér í allan dag til að reyna að fá einhverjar upplýsingar um þessa lántöku hjá hv. formanni efnahags- og skattanefndar svo ég tali ekki um hæstv. fjármálaráðherra og hér fást engin svör, hvorki fyrir okkur né þá sem horfa á þessa umræðu. Það er hagstætt fyrir stjórnvöld sem eru með valdbeitingu að hafa þegna sína hrædda og óttaslegna og þessi ríkisstjórn er sannarlega að vinna eftir því munstri að gefa engar upplýsingar, hafa allt undir borði, ekkert gegnsæi, ekki neitt, þvert á það sem talað var um fyrir síðustu kosningar þar sem allt átti að vera gegnsætt, allt átti að vera uppi á borðinu, allt eftir hrunið átti að vera svo dásamlegt og fallegt og ekki átti leyna neinum upplýsingum.

Nú er ég svo heppin að hæstv. fjármálaráðherra hefur gengið aftur inn í þingsalinn og þá langar mig til að fylgja eftir þeirri spurningu sem ég kom fram með og aðrir þingmenn sem hér hafa talað. Hverjir eru vextirnir á norrænu lánunum, fyrst búið er ákveða hverjir þeir eru og þeir eru samhæfðir, eru þeir hærri en Icesave-vextirnir eða eru þeir undir því lágmarki? Ég óska eftir að hæstv. fjármálaráðherra svari þessu því að eins og hans flokkur talaði fyrir kosningar þá á allt að vera opinbert, allt á að vera uppi á borðinu og það er greinilega búið að semja um þessi lán. Ég óska eftir svari í þessum ræðustól.