137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[18:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eins og ég hef upplýst nokkrum sinnum í dag eru engar nýjar lántökur á ferðinni og engar nýjar fjárheimildir heldur er verið að stemma af mögulegar lántökur ríkisins og reyndar Landsvirkjunar á þessu ári eins og það liggur núna fyrir að þær geti mestar orðið, þannig að fullnægjandi heimildir séu til staðar í lögum. Þessar tölur hafa í raun allar legið fyrir síðan í vetur, síðan áætlunin í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var gerð, og menn slógu máli á þær upphæðir gjaldeyrislána sem síðan hefur staðið til að taka. Sömuleiðis eru þetta sömu tölur og urðu til í haust eða snemma vetrar varðandi kostnaðinn við að endurreisa bankakerfið, hver hann gæti mestur orðið og það er tekið inn í efnahagsáætlanir stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og reyndar takmörk á. Þetta er þak sem gengið er út frá að geti og megi verða mestur mögulegur kostnaður ríkisins við þessa endurfjármögnun bankakerfisins. Annað skýrist af öðrum þáttum sem hér hefur verið farið yfir og nefndir eins og hallinn á ríkissjóði, fjármögnun hans og fleira þessu tengt.

Varðandi lánin við Norðurlöndin þá stendur svo á að það verður væntanlega skrifað undir þau á miðvikudaginn og í framhaldinu sendar út fréttatilkynningar og upplýst um þá skilmála. Það er ekki venjan að gera það fyrr en undirritun hefur átt sér stað. Þetta eru lán til styttri tíma en t.d. lán vegna Icesave-ábyrgðanna og verða væntanlega lán með breytilegum vöxtum þannig að þau verða ekki sambærileg að öllu leyti en að sjálfsögðu hefur verið keppt að því að fá sem hagstæðust lánskjör. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmenn um að þau verða það, þau verða eftir atvikum mjög hagstæð miðað við það sem íslenska ríkið getur búist við og auðvitað víðs fjarri öllum markaðskjörum sem nú væru á lánum ef íslenska ríkið væri einhvers staðar að taka lán eða fengi einhvers staðar lán, enda er vaxtaálagið á Íslandi einhverjir 600–700 punktar um þessar mundir eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður viti. Ísland er ekki að taka lán á markaði heldur erum við að fá pólitísk lán, ef svo má að orði komast, í gegnum samstarf okkar við grannríkin og í gegnum samstarfsáætlunina við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þá er samið um lánskjör sem taka mið af þessum aðstæðum og að sjálfsögðu mikið keppikefli fyrir land í erfiðleikum eins og okkur að fá þar sem hagstæðust lán. Svo mikið er víst að við fengjum hvergi á markaði vexti eða lánskjör sem væru neitt í líkingu við það sem þarna bjóðast ef við þyrftum að sæta því vaxta- eða áhættuálagi sem matsfyrirtæki og aðrir reikna á Ísland um þessar mundir. Þetta ætti hv. þingmönnum að vera allt saman ljóst.

Á miðvikudaginn kemur geri ég ráð fyrir að hægt verði að veita endanlegar upplýsingar um þessi lánskjör eftir því sem venja er að gera um slíka samninga og þá fá hv. þingmenn sín svör við því.