137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[18:38]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Mér finnst mikilvægt að menntamálanefnd Alþingis haldi stjórnendum lánasjóðsins við efnið þegar kemur að þessari útfærslu því að ef þessi skilyrði verða allt of þröng, þá er í raun og veru ekki verið að fara eftir þeim anda sem ríkir m.a. hér í þessari umræðu og væntanlega í starfinu innan nefndarinnar, en ég á nú von á því — því að það vinnur mjög hæft fólk hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna — að stjórnendur þess sjóðs fari eftir þeim anda sem ríkir í því nefndaráliti og þeirri löggjöf sem við ræðum hér.

Hins vegar fannst mér hv. þingmaður kannski ekki skilja þessar vangaveltur mínar varðandi lánasjóðinn og atvinnuleysisbæturnar áðan. Ég var ekkert endilega að ræða um að við þyrftum að stórvíkka þennan ramma heldur samspilið á milli þeirra fjármuna sem eru í Atvinnuleysistryggingasjóðnum og í Lánasjóði íslenskra námsmanna. Mér finnst það einfaldlega ekki passa að það sé í raun og veru hagstæðara að vera án atvinnu og þiggja bætur en að stunda nám. Það er þetta sem ég hefði viljað að hv. menntamálanefnd skoðaði með mjög opnum huga. Það er ljótt ef það verður þannig á næstu mánuðum og jafnvel tveimur, þremur árum að fólk fari að horfa til þess að það geti verið betra og í raun og veru nauðsynlegt í ljósi erfiðra aðstæðna í fjármálum hjá því að það „neyðist“ til þess að vera á atvinnuleysisbótum vegna þess að það hefur ekki efni á að vera í námi af því að framfærslugrunnurinn er svo lágur.

Það er eitthvað í þessu sem mér finnst ekki ganga upp og ég hvet hv. formann nefndarinnar til þess að taka þessi mál upp á vettvangi nefndarinnar því að það er nú valdið sem kemur frá þinginu og þá frá þingnefndunum og mér þætti mjög æskilegt að nefndin tæki þetta fyrir í störfum sínum, helst á þessu sumarþingi.