137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[18:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör. Það vill svo til að við hæstv. ráðherra erum oft mjög sammála í þessu og eins og hæstv. ráðherra benti á hér, að með því að færa ekki grunnframfærsluna upp bara sem nemur hækkun á vísitölunni síðustu mánuði verða námsmenn af 1.300 milljónum kr., sem er náttúrlega mjög dapur niðurskurður gagnvart hópi sem stendur ekkert allt of vel fyrir í ljósi þess að framfærslan hefur ekki verið endurskoðuð í mörg ár. Þetta verður enn dapurlegra þegar maður hugsar til þess að ríkisstjórnin skuli hafa skorið framlög til lífeyrisþega niður um 3.600 milljónir, að með þessum tveimur aðgerðum er ríkissjóður að spara sér um 5 milljarða kr. á kostnað námsmanna annars vegar og aldraðra og öryrkja hins vegar.

Þessir 5 milljarðar eru einungis 12% af 42.000 milljónum sem er einungis vaxtagreiðslan fyrsta árið vegna Icesave þannig að við sjáum um hvers lags gríðarlegar upphæðir við skuldbindum íslenska þjóð ef við samþykkjum þetta Icesave-samkomulag eins og það lítur út. Í ljósi þess að það er eitt það mesta grundvallarmál sem ég tel að við ræðum hér þessi missirin væri gott að heyra frá hæstv. ráðherra hver hugur hennar er gagnvart þessu samkomulagi sem mun, ef það verður að veruleika, hleypa íslenskri þjóð í þvílíkt skuldafen til margra ára að við munum ekki geta haldið úti öflugum lánasjóði fyrir námsmenn og við munum ekki geta staðið undir öflugu velferðar- eða menntakerfi almennt ef þetta verður að veruleika. Ég trúi því einfaldlega ekki, af því að við hæstv. ráðherra erum oft svo sammála, og ég held að við séum skoðanasystkini í mjög mörgum málum, að hæstv. ráðherra skuli ekki vera sammála þeim sem hafa gagnrýnt þetta samkomulag, m.a. stærðfræðingum og hagfræðingum sem segja einfaldlega: Íslenskt þjóðfélag getur ekki tekið og skrifað undir þetta Icesave-samkomulag vegna þess að við höfum ekki efni á því, ekki nema við viljum hverfa marga (Forseti hringir.) áratugi aftur í tímann í lífskjörum. Hver er skoðun hæstv. ráðherra?