137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[18:52]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég, eins og aðrir þeir sem hér hafa tekið til máls, fagna þessu frumvarpi mjög og því góða samstarfi sem um það var í nefndinni. Það má segja að hér sé um sannkallað jafnréttisfrumvarp að ræða þar sem í raun og veru komið er til móts við þá sem ekki eiga kost á því að verða sér úti um ábyrgðarmann. Nú fá þeir sem efnaminni eru góða möguleika á því að geta farið í nám án þess þó að óþarfaáhætta sé tekið fyrir ríkið með því að gera ráð fyrir því að ef viðkomandi námsmaður uppfyllir ekki skilyrði sjóðsins sé gert ráð fyrir að hið gamla ábyrgðarmannakerfi sé við lýði.

Það er afar mikilvægt fyrir námsmenn þessa lands að eiga þennan öfluga lánasjóð, ekki síst fyrir námsmenn af landsbyggðinni, ég vil ítreka það, það skiptir landsbyggðarnemendur mjög miklu máli. Ég vildi óska þess að það mætti efla hann enn frekar þannig að við gætum tryggt námsmönnum lágmarksframfærslu og deili því skoðun hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar með að það mundi vera afskaplega hagstætt og gott ef við gætum eflt sjóðinn þannig að framfærsla námsmanna og lágmarksatvinnuleysisbætur væru hliðstæðar. Ég heyri að hæstv. menntamálaráðherra er nú þegar farin að vinna að því máli og ég geri ráð fyrir því að hv. menntamálanefnd muni einnig taka þau mál upp.

Ég vil bara ítreka að þetta frumvarp er afar mikilvægt, sérstaklega fyrir efnaminni stúdenta og stúdenta af landsbyggðinni. Ég er mjög ánægð með að það virðist vera hægt að ná góðri þverpólitískri sátt um málið. Það eina sem ég deili ekki með Birki Jóni Jónssyni er að vera alltaf að tengja málið við Icesave. Ég held að við getum alveg rætt námslán án þess að tengja það við Icesave.