137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

náms- og starfsráðgjafar.

83. mál
[19:03]
Horfa

Frsm. menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá menntamálanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 35/2009, um náms- og starfsráðgjafa.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson og Jón Vilberg Guðjónsson frá menntamálaráðuneyti og Guðrúnu Helgadóttur og Valgerði Halldórsdóttur frá Félagsráðgjafafélagi Íslands.

Umsagnir bárust frá Háskóla Íslands, Félagsráðgjafafélagi Íslands – fagdeild fræðslu- og skólafélagsráðgjafa, náms- og starfsráðgjöf menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Félagi náms- og starfsráðgjafa, og Leikn, samtökum aðila í fullorðinsfræðslu.

Með frumvarpinu er lagt til að við 4. gr. laga nr. 35/2009, um náms- og starfsráðgjafa, verði bætt heimild sambærilegri þeirri sem er að finna í 4. og 5. mgr. 24. gr. laga nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, um að menntamálaráðherra geti falið háskólum, sem hlotið hafa viðurkenningu á grundvelli laga um háskóla og sinna menntun náms- og starfsráðgjafa, að annast útgáfu leyfisbréfa. Einnig er lagt til að ráðherra geti falið öðrum til þess bærum aðila að annast útgáfu leyfanna.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason og Jónína Rós Guðmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Eftirfarandi hv. þingmenn skrifa undir nefndarálitið: Oddný G. Harðardóttir, Skúli Helgason, Margrét Tryggvadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Eygló Harðardóttir.