137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[19:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa framsögu í þessu máli. Mér sýnist að tilgangur þessa frumvarps sé góður eins og náttúrlega í öllum málum sem eru lögð fram á Alþingi. Hugsunin er sú að auðvelda almenningi greiðslur vegna þessa afnotagjalds eða nefskatts með því að fjölga gjalddögum úr einum upp í þrjá. Við þetta vakna ýmsar spurningar og ég vil áður en ég held áfram segja að ég tel nauðsynlegt að veita fólki aukið svigrúm í ljósi erfiðra aðstæðna í samfélaginu til að greiða þessa reikninga. Það segir sig sjálft að það er auðveldara að greiða afborgun í þrennu lagi heldur en í einu lagi þannig að tilgangurinn er af hinu góða og vonandi mun þetta verða einhverjum til frekari hjálpar sem á í erfiðleikum fjárhagslega.

Ég velti því fyrir mér varðandi heildarupphæðina sem almenningur borgar til Ríkisútvarpsins í ljósi þess að verið er að skipta þessum greiðslum úr einni upp í þrjár hvort það leiði ekki til þess að framlög eða þessar upphæðir berist þá eðlilega seinna inn í rekstur Ríkisútvarpsins sem býr við mikla erfiðleika í rekstri og hvort það geti þá ekki leitt það af sér að vaxtakostnaður — vegna þess að Ríkisútvarpið hefur átt í rekstrarerfiðleikum — hvort vaxtakostnaður RÚV muni ekki hækka með hliðsjón af þessu, í ljósi þess að greiðslurnar dreifast á þrjú tímabil í stað þess að þetta berist til stjórnenda RÚV í einni greiðslu. Mér til upplýsingar væri ágætt að heyra hæstv. ráðherra fara yfir þetta vegna þess að erfiðleikar Ríkisútvarpsins hafa verið miklir á undangengnum árum og hefur meðal annars hæstv. ráðherra reynt að koma að lausn þeirra mála nú nýlega sem ég ætla að fara aðeins betur yfir á eftir.

Frú forseti. Það er áætlað að útgjöld ríkissjóðs geti aukist um 9 millj. kr. með auknum fjölda útsendra innheimtuseðla. Að sjálfsögðu þurfum við að gæta aðhalds í rekstri hins opinbera. Það væri æskilegra að verja þessum 9 millj. kr. með einhverjum öðrum hætti til þess meðal annars að bæta kjör námsmanna, eldri borgara eða annarra frekar heldur en ráðast svona í kostnaðarsamar aðgerðir. Því velti ég því fyrir mér þar sem við hæstv. ráðherra erum á svipuðu reki hvort þetta fyrirkomulag, þ.e. gamaldags fyrirkomulag að mínu viti að senda greiðsluseðla með pósti til fólks sé endilega það heppilegasta í ljósi þess að þetta er nokkuð dýrt innheimtuform. Sjálfur — svo ég upplýsi mitt heimilisbókhald — borga ég ýmsa þætti með reglulegum greiðslum út af mínu greiðslukorti og meðal annars mánaðarlega og verð þar af leiðandi minna var við slíkt. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hafi skoðað eitthvað slíkt, hvort ekki væri hægt að taka upp einfaldara fyrirkomulag án þess þó að afnema þetta, þ.e. að þeir sem mundu til dæmis vilja láta bókfæra þetta út af sínu kreditkorti mánaðarlega, tólf sinnum á ári, gætu slíkt því ég tel það einungis vera hluta af 21. öldinni sem við lifum á. Væri ekki eðlilegra að gefa þeim sem borga þessi afnotagjöld, þennan nefskatt kost á því einfaldlega að skuldfæra þetta af kreditkorti einu sinni í mánuði. Þar af leiðandi mundi gjalddögunum fjölga enn frekar og fólk yrði enn minna vart við að borga þessi afnotagjöld. Það mundi líka létta umræðuna um Ríkisútvarpið almennt sem hefur á stundum verið neikvæð á undangengnum árum og þá kannski ekki síst út af þessum afnotagjöldum og nú nefskattinum sem blasir við okkur.

En varðandi fjárhag Ríkisútvarpsins, sem er ein af grundvallarstofnunum í okkar samfélagi og gegnir mjög mikilvægu hlutverki og mikilvægt er að búa vel að þeirri stofnun, þá vil ég inna hæstv. ráðherra örstutt eftir því hver staða Ríkisútvarpsins sé núna. Eins og við þekkjum lýsti hæstv. ráðherra því yfir, eftir væntanlega viðræður við stjórnendur Ríkisútvarpsins, að skuld Ríkisútvarpsins, þá væntanlega við ríkissjóð upp á 400 eða 500 millj. kr., þ.e. ráðherra hefði ákveðið að breyta þeirri skuld í hlutafé og að sjálfsögðu er það náttúrlega alltaf með fyrirvara Alþingis eins og við þekkjum. En ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því þar sem við höfum starfað á sumarþingi um nokkurra vikna skeið hvort hæstv. ráðherra hefði ekki ætlað sér að leggja fram eitthvert frumvarp þannig að Alþingi Íslendinga mundi staðfesta þennan gjörning sem er upp á að mig minnir 400–500 millj. kr. Ég bind miklar vonir við hæstv. ráðherra að því leyti til að hæstv. ráðherra er ungur stjórnmálamaður og við höfum verið að tala fyrir því að breyta vinnubrögðum á vettvangi þingsins. Þar sem ég þykist vita að hæstv. ráðherra óskaði ekki eftir fundi í fjárlaganefnd til að fá þessa heimild, þ.e. breyta þessari skuld yfir í hlutafélag sem ætti náttúrlega að vera hinn eðlilega framgangur mála — nú ætla ég ekki að vera í fortíðinni. Ég er að hugsa fram á veginn — þ.e. þegar ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ákveða að skuldbinda ríkissjóð og það er Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið væri þá ekki æskilegt að hæstv. ráðherrar tilkynni og óski eftir fundi með viðkomandi nefnd, þ.e. fjárlaganefnd, til að óska eftir stuðningi nefndarinnar til að fara í slíkan gjörning? Nú gerði hæstv. ráðherra það ekki. En ég spyr þá af því að hæstv. ráðherra er ungur stjórnmálamaður og náttúrlega þrælefnilegur eins og allir sjá sem hafa horft á þessa umræðu hvort hæstv. ráðherra sjái það ekki fyrir sér í framtíðinni að það væri æskilegra að aðilar úr framkvæmdarvaldinu sem sækja sitt umboð til þingsins viðhafi að minnsta kosti í stærri málum — nú er 400–500 millj. kr. ákvörðun orðin stórmál í dag í ljósi efnahagsástæðna — hvort ekki væri betra að hafa það sem reglu hér eftir að ráðherra óski eftir fundi með viðkomandi nefnd eða fulltrúa ráðherra til þess að minnsta kosti að leita eftir umboði frá meiri hluta þingmanna sem sitja í þeirri nefnd. Vanalega er það leyfi veitt. Í ljósi þess ráðherraræðis sem mér finnst við búa við og þess hversu máttlaust þingið virðist vera í allri ákvarðanatöku finnst mér að breyting sem þessi gæti verulega styrkt löggjafarþingið og samkomuna og líka það hlutverk sem alþingismenn eru kjörnir til að sinna. Við erum kjörin til að gæta hagsmuna Alþingis. Við erum kjörin til að setja ríkisstjórninni ákveðin fjárlög sem hún á að vinna innan. En því miður hefur borið á því — ekki bara síðustu mánuði heldur mörg síðustu ár og jafnvel áratugi — að ráðherrar hafa tekið sér það vald að senda út fréttatilkynningar um að ríkisstjórnin hafi ákveðið að verja þetta mörg hundruð milljónum eða jafnvel milljörðum til þess að styrkja viðkomandi málefni án þess að hafa leitað til þingsins. Ef okkur er alvara með það að styrkja löggjafarsamkomuna og löggjafarþingið sem þessi ríkisstjórn hefur reyndar boðað — hún hefur boðað svona lýðræðislega umræðu — þá velti ég því fyrir mér hvaða sýn hæstv. ráðherra hafi á málefni sem þetta, þ.e. að ráðherrar komi auðmjúkir með beiðni til fjárlaganefndar þar sem óskað er eftir viðbótarstuðningi í tiltekið verkefni sem yrði þá reyndar væntanlega oftar en ekki samþykkt af því að ráðherrann hefur vanalega meiri hluta á bak við sig í nefndinni. En segjum sem svo að það væri eitthvað sem ráðherra og ráðuneytið hefði mislesið í og einhver þingmaður sæi, þá væri mögulega hægt að afstýra vitlausum ákvörðunum vegna þess að sú yfirlýsing sem ráðherrann og ráðherrar í dag eru að gefa út með sínum fréttatilkynningum verða yfirleitt ekki aftur teknar vegna þess að þá hefur verið búið að skapa mjög miklar væntingar í samfélaginu.

Þetta er nokkuð sem ég mundi vilja sjá, þ.e. breytingu á þessum vinnubrögðum almennt sem ég batt miklar vonir við í ljósi þess að helmingur þingmanna er nýr á Alþingi, að við mundum reyna að innleiða þessi vinnubrögð því að fortíðin kennir okkur að núverandi stjórnarfyrirkomulag gengur í raun ekki upp að mínu viti því að betur sjá augu en auga eða betur heyra eyru en eyra, ef svo mætti að orði komast. Mér finnst því mikilvægt að þegar við tökum ákvarðanir sem þessar að fleiri komi að ákvarðanatökunni heldur en einn eða fleiri ráðherrar, jafnvel tólf ráðherrar. Því væri ánægjulegt ef hæstv. ráðherra, sem er oft sammála mér og ég er oft sammála hæstv. ráðherra, deildi þessari sömu framtíðarsýn þannig að við gætum eflt þingið á ný og hafið það upp til vegs og virðingar því það er þannig að hæstv. ráðherrar starfa í umboði alþingismanna sem þjóðin hefur kosið til að sinna ábyrgðarstörfum og það er fullkomlega ömurlegt að fylgjast með því hvernig Alþingi er hálfmáttlaust núna á þessum síðustu og verstu tímum þegar miklir efnahagserfiðleikar ganga yfir þjóðina, að við þurfum í máli eftir máli að hlusta á það í fjölmiðlum eftir einhverjar fréttatilkynningar sem ráðherrar hafa sent frá sér hvaða ákvörðun ríkisstjórnin hefur tekið í viðkomandi málaflokki. Það er hreinlega ekki samboðið virðingu þingsins og ég vonast til þess að nýir þingmenn á vettvangi Alþingis og sú nýja kynslóð stjórnmálamanna sem er að ryðjast fram á völlinn muni breyta einhverju í þessum málum. Forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, eru mjög þingreynt fólk og þekkja kannski ekki önnur vinnubrögð en þessi enda hafa báðir hæstv. ráðherrar verið um áratugaskeið í stjórnmálum. Einhvers staðar segir að erfitt sé að kenna gömlum hundi að sitja. Nýir vendir sópa aftur á móti best. Því bind ég miklar vonir við að hæstv. ráðherra muni svara þeim spurningum sem ég lagði fyrir hana sem voru nokkrar, í fyrsta lagi hvort við getum ekki breytt að einhverju leyti þessu gamaldags fyrirkomulagi varðandi innheimtuna og síðan mundi ég vilja heyra hæstv. ráðherra fara örlítið betur yfir það hvernig umgangast á Alþingi þegar ráðherrar taka ákvarðanir um fjárútlát sem Alþingi hefur ekki veitt heimild til.

Annars vil ég lýsa yfir ánægju með þann anda sem er yfir þessu frumvarpi og sé ekki annað í fljótu bragði en að við framsóknarmenn munum styðja þetta mál. Þetta er svo sem ekki stórt að umfangi. En ég tel að það megi skoða einhverjar breytingar til hagsbóta fyrir almenning sem gangi enn lengra en þetta. Vil ég þá benda á að hægt er að innheimta hluti með allt öðrum hætti núna en fyrir tíu eða tuttugu árum. Ég bendi á að nefndin skoði það sérstaklega og ég hef þá trú að það væri sérstaklega til hagsbóta fyrir þá sem greiða framlög til Ríkisútvarpsins. Ég vil enda á að segja í þessari umræðu að það gegnir lykilhlutverki í okkar samfélagi og mikilvægt er að við hlúum sem best að því.