137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[19:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem einungis upp til að lýsa yfir mikilli ánægju með yfirlýsingar hæstv. ráðherra. Það er ferskur tónn í þessum málflutningi að hæstv. ráðherra er tilbúin að skoða það að innleiða hér ný vinnubrögð. Ríkisstjórnin er í raun og veru fjölskipað stjórnvald þannig að hæstv. ráðherra hefur mikil völd yfir sínum málaflokki og væri ráðherranum í lófa lagið að innleiða ný vinnubrögð á Alþingi með því að lýsa því yfir að komi til slíkra ákvarðana í ráðuneyti hennar muni ráðherrann taka frumkvæði í því innan ríkisstjórnarinnar að eiga þessi samskipti við fjárlaganefnd. Það er í raun og veru ekkert sem stendur í vegi fyrir því. Um leið væri hæstv. ráðherra að brjóta í blað, held ég, í margra ára sögu Alþingis Íslendinga og auka vægi fjárlaganefndar þingsins með því að óska eftir fundi annaðhvort sjálf eða embættismenn viðkomandi ráðherra til að kynna þær ákvarðanir sem hefði þurft að taka snögglega því að vanalega er hér um óvænt og ófyrirséð útgjöld að ræða. Það væri vissulega prik í bók hæstv. ráðherra. Ég mundi fyrstur manna koma hér upp og lýsa yfir því að þau vinnubrögð mörkuðu ákveðin tímamót í samskiptum framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Í raun og veru mundi það sýna ákveðinn virðingarvott af hálfu framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi Íslendinga og nefndum þess og þess hlutverks sem þingmenn eiga að gegna, að hafa frumkvæði að slíkum nýjum og breyttum vinnubrögðum. Ég vona að hæstv. ráðherra geri þetta í framtíðinni því að ég hugsa að það verði hæstv. ráðherra til vegsauka í stjórnmálum og stjórnarandstaðan mun a.m.k. leggjast á sveif með þessum vinnubrögðum og vonandi, ef af þeim verður, verða þau vinnubrögð öðrum hæstv. ráðherrum til eftirbreytni.