137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Margir stofnfjáreigendur víðs vegar um land tóku þá afdrifaríku ákvörðun að auka stofnfé sitt til að verja sjóðinn sinn og oft undir miklum samfélagslegum þrýstingi til að verja þjóðina gegn ýmsum lukkuriddurum. Fjölmargir fjármögnuðu þá aukningu með gengistryggðum lánum. Þessum einstaklingum var m.a. bent á að ef allt færi á versta veg færu bréfin aldrei á minna en nafnvirði þar sem ekki væri heimilt að skrifa niður stofnfé, aldrei á minna en verðinu 1. Reglur um stofnframlag voru afgreiddar frá fjármálaráðuneytinu. Sparisjóðirnir sóttu þá um það framlag sem ríkið var búið að lofa en svo birtist allt í einu frumvarp um sparisjóði þar sem algerlega á að breyta hugmyndafræðinni á bak við stofnfé og fara að meðhöndla það líkt og hlutafé.

Í frumvarpi viðskiptaráðherra er ætlunin að leyfa að skrifa alveg niður stofnfé eða eins og henta þykir. Látið er að því liggja að niðurfærsla stofnfjár sé forsenda þess að ríkissjóður afgreiði umsóknir sparisjóða um stofnfjárframlag á grundvelli neyðarlaganna. Þannig á enn á ný að fara að breyta leikreglunum eftir á. Því beini ég eftirfarandi spurningu til hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar: Gerir þingmaðurinn sér grein fyrir að niðurfærsla stofnfjár getur þýtt að fjöldi stofnfjáreigenda getur orðið gjaldþrota? Í Sparisjóði Keflavíkur er um 1.500–1.600 stofnfjáreigendur, þar af eru það um 200 í Húnaþingi vestra sem eiga stórar upphæðir í stofnfé, að langmestu leyti einstaklingar, bændur, ellilífeyrisþegar og venjulegt vinnandi fólk. Sama má raunar segja um langstærstan hluta stofnfjáreigenda í Sparisjóði Keflavíkur.

Einnig hefur verið bent á að sama staðan sé uppi í Sparisjóði Bolungarvíkur sem er líka í kjördæmi hv. þingmanns. Mjög margir eða 25% eru kjósendur hv. þingmanns sem hafa trúað á loforð VG um að standa vörð um sparisjóðina. Telur þingmaðurinn þetta vera í anda þess að tryggja hinn félagslega grunn sparisjóðanna að ríkisvæða þá? (Forseti hringir.) Telur hann að frumvarp þetta sé í anda þess að endurskipuleggja sjóðina í samræmi við grunngildi sparisjóðanna, félagshyggju, samvinnu, byggðarfestu og uppbyggingu landsbyggðarinnar?