137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þjóðin sem og þingheimur allur hafa beðið þess í ofvæni að fá einhverjar fréttir af því hvenær Icesave-samningarnir verða lagðir fyrir þingið og hvernig það muni bera að. Hæstv. fjármálaráðherra byggði á dögunum upp væntingar hjá þjóðfélaginu um glæsilega niðurstöðu og því verður að segja að vonbrigðin urðu mikil þegar samningarnir litu dagsins ljós fyrir þingmenn eftir mikið japl, jaml og fuður. Nú bíðum við þingmenn eftir því að málið verði lagt fram og nýjustu fregnir herma að það verði í dag. Samkvæmt sögusögnum verða fylgiskjöl með samningunum sem reynt er að vekja væntingar um að muni breyta afstöðu manna í þessu máli. En mér skilst að frumvarpið komi fram í dag og að í því verði falin ósk um ríkisábyrgð vegna þessara samninga. Heildartala samninganna hljóðar upp á um það bil 730 milljarða kr. auk vaxta sem nema um 40 millj. kr. á ári en með umfjöllun sérfræðinga munu þeir falla á ríkið í heild.

Í merkilegri grein Jóns Daníelssonar prófessors í Morgunblaðinu í dag kemur fram sú afstaða hans að samninginn verði að fella. Sníða þurfi af samningunum lagalega agnúa og gæta þess að fjárhæðin sem falli á Ísland verði ekki svo há að hagkerfið nái ekki að greiða skuldina og öðlast fyrri styrk. Jafnframt er gagnrýnt að samninganefndin var skipuð mönnum sem fæstir hafa komið nálægt alþjóðlegri samningagerð af þessu tagi áður. Í ljósi þess að málið varðar alla fjárhagslega framtíð landsins tel ég rétt að beina eftirfarandi spurningum til hv. formanns fjárlaganefndar:

1. Telur hv. þm. Guðbjartur Hannesson að sá samningur sem fyrir liggi sé glæsilegur? Telur hann að það hafi verið mistök af ríkisstjórninni að skipa pólitíska embættismenn í forsvar fyrir nefndina og telur þingmaðurinn að nægilegt tillit hafi verið tekið til sérstakrar stöðu íslensks efnahagslífs þannig að forsvaranlegt sé að samþykkja samninginn?

2. Ætlar hv. þingmaður Guðbjartur Hannesson að samþykkja ríkisábyrgð á samningunum?