137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér kemur Icesave-málið enn einu sinni á dagskrá. Ég veit ekki hvort hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hefur tekið eftir því að ég hef hvergi fjallað um þetta mál opinberlega. Það er vísvitandi einfaldlega vegna þess að ég hef beðið eftir því að það komi formlega inn í þingið, þ.e. að krafan og óskin um ríkisábyrgðina með öllum þeim gögnum sem henni fylgja verði flutt af þar til bærum aðila. Ég áskil mér rétt til að skoða þau gögn og meta afstöðu mína í framhaldi af því. Nú eygjum við þá von að þetta mál komi inn í þingið á einum eða tveimur dögum.

Ég ætla samt ekki að sneiða hjá því að svara þessum spurningum. Ég hef aldrei heyrt þær yfirlýsingar um að samningur um Icesave sé glæsilegur. (Gripið fram í.) Það getur ekki glatt einn einasta mann að þurfa að gera slíkan samning og það hljóta allir að harma að við skulum vera búin að setja þjóðina með því umhverfi sem við sköpuðum bönkum og fjármálalífinu á undanförnum árum í þá stöðu að við skuldum erlenda innlánsreikninga til jafns við íslenska innlánsreikninga upp á hundruð milljarða. Ég held að það sé aldrei hægt að kalla það glæsilegan samning.

Varðandi skipun embættismannanna mætti sömuleiðis spyrja um hvort ég sé hæfur til þess sem formaður fjárlaganefndar að taka málið til umfjöllunar. Ég tel svo vera einfaldlega vegna þess að ég tel að það sé hlutverk okkar, þótt ekki sé um að ræða sérstaka fagmenntun í Icesave, að kalla til aðstoðarfólk og menn sem hjálpa til við slíka vinnu. Ég hef svo sem ekki hlýtt mönnum yfir það, þeim pólitísku embættismönnum, eins og hv. þingmaður kallar það, hvernig þeir leituðu ráða en auðvitað er það hluti af því sem þarf að fjalla um í Icesave-málinu hvernig staðið var að samningagerðinni.

Varðandi áhrifin á íslenska efnahagslífið mun það væntanlega koma fram í þeim gögnum sem lögð verða fram með Icesave. Það verður þá væntanlega hlutverk Alþingis að meta það hvort við stöndum undir þeim skuldbindingum sem gefnar hafa verið, (Forseti hringir.) meta það hvort við eigum að samþykkja þennan samning og vera þannig inni í alþjóðasamfélaginu (Forseti hringir.) eða að hafna honum.