137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Í ljósi umræðu hér í gær um samgöngumál langar mig að spyrja hv. 1. þm. Suðurk., Björgvin G. Sigurðsson, út í afstöðu hans til forgangsröðunar samgöngumannvirkja. Öll mannvirki eru mjög mikilvæg, hvort sem það eru göng í gegnum Vaðlaheiði, samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll eða tvöföldun Vesturlandsvegar, Suðurlandsvegar eða önnur þau mannvirki sem nauðsynleg eru. En annars vegar í ljósi umræðu við hæstv. samgönguráðherra í gær og hins vegar vegna fundar sem hæstv. samgönguráðherra og hv. þáverandi þingmaður Suðurkjördæmis, núverandi 1. þm. þess, Björgvin G. Sigurðsson, áttu og boðuðu til alla sveitarstjóra Árborgarsvæðisins, sveitarstjórnir, stjórn og samgöngunefnd Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga þar sem kynnt var, fyrir kosningar, að ákveðinn hluti vegarins væri búinn í skipulagsmálum og tilbúinn til útboðs sem yrði nú í júní- eða júlímánuði langar mig að heyra álit hans á þeirri breytingu á forgangsröðun sem hæstv. samgönguráðherra kynnti hér í gær.

Mig langar að vitna aðeins í sjöttu skýrslu samgöngunefndar SASS sem búin er að vinna ötullega að þessu máli. Þar segir að umferðin um Suðurlandsveg frá Reykjavík til Selfoss sé á bilinu 6.700–10.000 bílar eftir því hvar talið er og hefur aukist um 35–40% á sjö árum. Fólk sem fór þennan veg um helgina var reyndar í stærri bílaflota því að á laugardeginum fóru þar um 14.500 og tæplega 16.000 á sunnudeginum. Sumir héldu að þeir væru að keyra að slysi, svo hægt gekk umferðin. Það er heldur ekki skrýtið, síðustu sex árin, 2002–2007, urðu þar 10 banaslys og allt að 764 óhöpp, meiri háttar, minni háttar (Forseti hringir.) eða banaslys. Því langar mig að beina fyrirspurninni til hv. 1. þm. Suðurk. hvort hann sé sammála forgangsröðun hæstv. samgönguráðherra.