137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á þeim orðum sem komu fram hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni. Hann segir að engu hafi verið frestað þegar kemur að vegaframkvæmdum og hljótum við öll að fagna því. Hann talaði sömuleiðis um að forgangsröðunin yrði ekki í þá veru sem hér hefur verið í umræðunni þannig að við erum að sjá þá væntanlega Vesturlandsveginn og Suðurlandsveginn framar í forgangi.

Mér þótti athyglisvert að hlusta á þessa umræðu í dag. Þá er ég ekki að vísa í það að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir var, ef ég skildi hana rétt, að útskýra að þrátt fyrir að Vinstri grænir væru mjög fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu væru þeir orðnir andvígir henni núna sökum þess að Framsóknarflokkurinn var það á síðasta kjörtímabili. Eru Vinstri grænir einhvern veginn að verða að Framsóknarflokknum eins og hann var og þetta er allt saman hið athyglisverðasta.

Hér var rætt mál sem ég vek athygli þingmanna á, það er verið að breyta lögum um sparisjóði. Það á að gera með mjög miklum hraða án þess að fyrir því hafi komið fullnægjandi rök. Það er svolítið kaldhæðnislegt að á sama tíma og við vorum að gera þetta fyrir nokkrum dögum afgreiddum við mál með miklum hraða um fjármálafyrirtæki þar sem sérstaklega var varað við að það yrði gert með þeim hraða. Rökin fyrir hraðanum voru þau að það ætti að greiða laun starfsmanna í uppsagnarfresti. Nú hefur það komið í ljós, virðulegi forseti, að það stenst ekki og í fyrramálið mun viðskiptanefnd setjast yfir þessi lög, þessi mál sem (Forseti hringir.) meiri hlutinn klúðraði fyrir nokkrum vikum. Aftur á að gera það núna hratt og vel (Forseti hringir.) með sparisjóðina og þar undir liggja ekki litlir hagsmunir, virðulegi forseti. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna þingmenn á að virða ræðutíma.)