137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

stofnfé sparisjóða – þjóðaratkvæðagreiðslur – Icesave – samgöngumál.

[14:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér þótti fátt um skýr svör í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar þegar hann kom upp áðan til að svara spurningum mínum þannig að ég ætla að reyna aftur.

Varðandi þau ummæli hv. þingmanns að hann gæti jafnframt efast um hæfi okkar þingmanna til að fjalla um Icesave eins og ég get leyft mér að efast um hæfi hinna pólitísku sendinefndar sem send var til að semja þá finnst mér þetta frekar skrýtin afstaða vegna þess að það var þjóðin sem kaus hv. þm. Guðbjart Hannesson á þing einmitt til þess að taka ákvarðanir. Í dag er einfaldlega þörf á stjórnmálamönnum með bein í nefinu sem þora að taka ákvarðanir og það hefur verið fjallað mikið um þetta mál og mér skilst að í þingflokki Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) hafi einnig verið fjallað mikið það. Því ætti hv. þingmaður að geta veitt mér skýr svör: Ætlar hann að styðja þetta mál eða ætlar hann ekki að styðja þetta mál? Var ríkisstjórnin ekki með umboð frá þingflokki Samfylkingarinnar til að ganga frá þessum samningum? Hv. þingmaður hlýtur að hafa einhverjar skoðanir í þessu máli og hann skuldar okkur það, eða a.m.k. mér sem ber fram þessa fyrirspurn, að svara einhverri af þeim spurningum sem ég bar fram tiltölulega skýrt. Ég vonast svo sannarlega til þess að ég fái einhver svör við spurningum mínum.