137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[14:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Stutta svarið er einfaldlega já. Ég tel að þessi skýrsla sé sett fram af heiðarleika af hálfu þeirra fræðimanna (THÞ: … er ekki fræðimaður.) sem þar hafa lagt hönd á plóginn og ég er mjög sáttur við innihald hennar og ég ber að sjálfsögðu á því pólitíska ábyrgð. Ég ætla að biðja hv. þingmann að leggja af þann ósið að draga fjarstadda menn sem ekki geta svarað hér fyrir sig inn í umræður með þeim hætti sem hann er að reyna að gera hér með frammíkalli úti salnum. (Gripið fram í.) Það er ósmekklegt, hv. þingmaður.

Veruleikinn er auðvitað sá að þær breytingar sem menn gátu látið eftir sér að gera af pólitískum forsendum á veltiárunum, á froðutekjurnar sem menn höfðu inn í ríkissjóð meðan þjóðarbúið var að safna skuldum og var rekið með dúndrandi halla út á við, voru hneyksli. Skattstefna Sjálfstæðisflokksins var fullkomlega ábyrgðarlaus, hún er stórhneyksli, og það er af hennar sökum að við stöndum miklu verr í dag við að koma okkur út úr þessum erfiðleikum en við hefðum annars átt að gera. (Forseti hringir.) Við ættum að eiga mikinn forða inni í Seðlabankanum (Gripið fram í.) frá þeim sköttum (Forseti hringir.) sem ekki átti að lækka og við áttum að hafa stöðu núna til að beita (Gripið fram í.) sveiflujöfnunargetu (Forseti hringir.) ríkissjóðs meira en (Gripið fram í.) aðstæðurnar gera okkur mögulegt.

(Forseti (SVÓ): Forseti biður um hljóð í salnum.)