137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[14:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við þurfum að skapa atvinnulífinu skilyrði til að vaxa og dafna. Þess vegna leggur maður ekki aukaflækjustig á atvinnulífið. Jafnvel þótt það taki ekki gildi fyrr en um áramót þá eru skilaboðin þegar komin fram og ég hef heyrt það sjálf frá orkufyrirtækjum, frá álfyrirtækjunum sem hyggja hér á fjárfestingar, til að mynda í Helguvík, að þetta er þegar farið að skapa þeim vandræði og er að skapa óvissu sem við þurfum ekki á að halda núna. Í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins, sem fjármálaráðherra ber ábyrgð á, er gert ráð fyrir ákveðnum stóriðjuframkvæmdum til þess að viðhalda hér hagvexti. Það er gert með annarri hendinni. Með hinni hendinni er verið að skattleggja og þar með draga úr hvata þessara fyrirtækja til þess að koma hingað með fjárfestingar þegar við þurfum sem aldrei fyrr á nýfjárfestingum og innspýtingu erlends fjármagns inn í atvinnulífið að halda. Önnur óvissa sem verið er að skapa hér og kemur fram í þessu plaggi er varðandi (Forseti hringir.) umhverfisskatta. (Forseti hringir.) Það er sett fram en ekki tekin afstaða til þess. (Forseti hringir.) Ég er að benda á að í svona árferði eigum við að draga úr óvissu, (Forseti hringir.) ekki að skapa hana. Þó að þetta taki ekki gildi fyrr en um áramót, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) getur skaðinn verið þegar skeður.