137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[14:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra þarf ekkert að minna mig á hvernig umræðan fór hér vorið 2007 eða haustið 2007. Vinstri grænir kröfðust þess að farið yrði í frekari fjárútlát þegar talað var um 20% aukningu á ríkisframlög. Ég man þetta alveg fullvel.

Mig langar til þess að spyrja aftur sömu spurningar og ég spurði áðan: Af hverju er lánið frá Icesave ekki talið með í skuldum ríkissjóðs í töflunni á öftustu blaðsíðu skýrslunnar og af hverju eru lánin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Noregi og fleirum ekki talin með í skuldum ríkissjóðs? Þetta eru gríðarlega miklar forsendur sem breyta allri skýrslunni.

Er ekki kominn tími til þess að við fáum réttar tölur? (Forseti hringir.) Við höfum aldrei fengið aðrar vísbendingar eða svör (Forseti hringir.) frá stjórnvöldum en að allt sé hér í stakasta lagi. Og svo breytist það daginn eftir.