137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[14:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fullyrði nú að aldrei hafa verið reiddar fram jafnmiklar upplýsingar og eins mikil hagræn gögn og nú hefur verið gert á undanförnum mánuðum enda rétt og skylt eins og aðstæðurnar eru og í ljósi þess sem við erum að glíma við. Hvenær áður hefur Alþingi haft slíkar upplýsingar um fjárlagagerð næsta árs til dæmis eins og það hefur hér í höndunum? Aldrei. Hvaða upplýsingar höfðu stjórnarsinnar, hvað þá stjórnarandstæðingar, í höndum um svipað leyti í fyrra um það sem í vændum var haustið 2008? Engar. (Gripið fram í.)

Hér hafa verið ítrekað í vetur lagðar fram upplýsingar, bestu fáanlegar upplýsingar, á heimasíðu forsætisráðuneytisins í gögnum af þessu tagi og hv. þingmaður mun fá fleiri upplýsingar á morgun. Varðandi þá framsetningu sem hér er þá byggir hún á þeirri flokkun sem venjubundin er, að lán sem Seðlabankinn tekur eru þar og skrá yfir þau er haldin þar. Það á við um lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, lánið frá norska ríkinu (Forseti hringir.) eða norska seðlabankanum og það á auðvitað í þessum skilningi líka við um innlánstryggingarsjóðinn (Forseti hringir.) sem er lántakinn í tilviki Icesave.