137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og hv. þingmenn hafa gert í andsvörum þakka fjármálaráðherra fyrir framlagningu á þessari skýrslu hans um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013. Á margan hátt er þetta hið fróðlegasta plagg, ekki eingöngu fyrir það sem í því stendur heldur ekki síður fyrir hitt sem ekki kemur þar fram og kem ég raunar að því seinna. Hins vegar er alveg ljóst að það er full þörf á róttækum aðgerðum í ríkisfjármálum eins og kom ágætlega fram í framsögu hæstv. ráðherra með skýrslunni. Það ber að taka það fram strax að það er mjög gott í ljósi orða hæstv. ráðherra áðan að skýrslunni verður vísað til fjárlaganefndar til að hún nýtist og komi að gagni við þá vinnu sem fram undan er við fjárlög næstu ára. Það er tvímælalaust gott því að hér er um að ræða ákveðinn grunn að efni sem vissulega er hægt að nýta en það er annað í skýrslunni sem er vissulega umdeilanlegt, mjög álitamikil mál eru sett þar fram og á engan hátt er hægt að ætlast til að menn nái fullkominni samstöðu um þær leiðir sem þar eru lagðar til.

Maður spyr sig hins vegar þeirrar spurningar þegar þetta plagg berst manni í hendur hver tilgangurinn með því sé. Ekki á eingöngu að leggja út frá því í ljósi þeirrar talnasúpu sem svona plaggi óneitanlega fylgir, megintilgangurinn hlýtur að vera sá að koma betra skikki á þjóðfélagið í heild sinni en við upplifum núna. Það er raunar undirstrikað hér sem lykilatriði eða ég vil að minnsta kosti skilja það svo, virðulegi forseti, að lykilatriðið í þessari vinnu sé „að skapa forsendur fyrir nýja uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi“. Þetta tel ég vera eina mikilvægustu setninguna í allri skýrslunni þó að hún láti ekki mikið yfir sér. Hún kemur fyrir í inngangi og ég vil endurtaka þetta orðrétt, með leyfi forseta, að þessari skýrslu og þessari vinnu er ætlað „að skapa forsendur fyrir nýja uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi“. Maður leiðir því lesturinn í gegnum skýrsluna út frá þessari lykilsetningu.

Vissulega eru uppi ágætisáform í þessu plaggi um það hvernig menn ætla að reyna að ná samstöðu um það mikla verk sem fram undan er og eins og það er orðað og hæstv. ráðherra komst að orði áðan þurfi allir að leggjast á árar í því starfi sem fram undan er og ná þurfi víðtækri sátt um verkefnið.

Í skýrslunni á bls. 2 er listað upp um hvaða aðila þar er að ræða. Þetta eru aðilar vinnumarkaðarins og í það er vitnað hér, forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins varðandi skattapólitíkina sem vinstri grænir og hæstv. fjármálaráðherra standa fyrir, til stuðnings þeirri skattapólitík sem nú er rekin. Ég vil taka undir með þeim ræðumönnum sem lýstu sig andvíga þeirri pólitík sem Samtök atvinnulífsins hafa í þeirri skattapólitík sem uppi er í ætlun ríkisstjórnarinnar og birtist með ýmsum hætti í þessari skýrslu.

Í öðru lagi er lagt til samstarf við sveitarfélögin. Ég fagna orðum hæstv. fjármálaráðherra mjög varðandi áform um bætt samskipti við sveitarfélögin og betra samstarf við þau við þær ákvarðanir sem fram undan eru. Ekki veitir af því að fjármál hins opinbera hljóta að taka til sveitarfélaganna jafnt sem ríkissjóðs og í þeim greinargerðum og skýrslum sem komið hafa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur verið áréttað að það sé mjög mikilvægt að taka fjármál sveitarfélaganna með í þessa súpu alla saman.

Það leiðir hins vegar hugann að nýsamþykktum aðgerðum á Alþingi fyrir helgi í svokölluðum bandormi en þar var verið að leggja auknar álögur á sveitarfélögin upp á 1,2 milljarða sem ég sé ekki með hvaða hætti þau geta mætt öðruvísi en að ganga enn frekar á þá þjónustu sem verið er að veita íbúum sveitarfélaganna og þótti sumum nóg að gert. Með öðrum orðum, ríkið er að vísa vandræðum sínum við að ná tökum á efnahagsmálunum yfir til hins stjórnsýslustigsins án þess að um það hafi í sjálfu sér verið neitt samráð.

Hér er líka rætt um samstarf við aðra hagsmunaaðila og nefnt í því sambandi að stjórnvöld ætli að leggja áherslu á gott samstarf við heildarsamtök annarra hagsmunaaðila. Upp eru talin samtök sem ég leyfi mér að orða svo að liggur ekkert sérstaklega vel á í dag, þ.e. samtök aldraðra og öryrkja. Við þekkjum viðbrögð þeirra við nýsamþykktum bandormi þar sem menn deildu mjög hart á þá forgangsröðun við niðurfærslu tilfærslnanna í bandorminum sem bitnaði fyrst á þessum hópi lífeyrisþega sem við getum ætlað að séu í kringum 42 þúsund manns í landinu sem hljóta allir með einhverjum hætti skerðingu í þessum efnum.

Síðan eru talin upp samtök bænda og ég held að ég láti nægja að vitna bara í áhuga núverandi ríkisstjórnarflokka á því að ganga í Evrópusambandið í algjörri andstöðu við heildarsamtök bænda. Að minnsta kosti liggur fyrir þinginu tillaga frá ríkisstjórninni um að gengið verði til þessara viðræðna og bændur eru upp til hópa og landssamtök þeirra algjörlega andvíg þessu dæmi. Það skiptir ekki máli þó að menn hafi á því aðrar skoðanir, stefnan og kúrsinn frá ríkisstjórninni er lagður þannig út að við ætlum okkur að sækja þarna um. Ég trúi því ekki að ábyrg stjórnvöld sæki um aðild að samtökum eins og Evrópusambandinu nema þau ætli sér að ljúka málinu, annars geta menn ekki verið trúverðugir.

Í fjórða lagi er vitnað til atvinnulífsins og fjölgunar starfa. Sú málsgrein sem það er tiltekið er í rauninni eina atriðið í allri þessari 50, 60 blaðsíðna skýrslu sem lýtur að því að búa til og stækka þá köku sem til skiptanna er. Það er þetta atriði sem ég sakna mjög í því verki sem hér liggur fyrir og tel raunar alveg nauðsynlegt að fjárlaganefnd skoði það þegar hún fær þetta mál til umfjöllunar og sem gagn inn í framhaldsvinnu með hvaða hætti mögulegt sé að breikka eða styrkja skattstofna ríkisins í því verki sem fram undan er, því að eins og þetta birtist manni erum við alltaf að skatta sama hópinn sem verður alltaf veikari og veikari í því verki sem fram undan er. Ég vil í því sambandi leyfa mér að vitna í mjög gott nefndarálit sem lagt var fram í tengslum við afgreiðslu á bandorminum og er frá minni hluta efnahags- og skattanefndar þar sem flutningsmenn þess nefndarálits tiltaka og ræða áhrifin af bandorminum og benda á að hann kemur mjög misjafnt niður á ólíkum aðilum þjóðfélagsins og telja að skattar á heimili og atvinnulífið séu í rauninni til muna of háir í samanburði við þær tilraunir sem gerðar eru til að reyna að ná niður rekstrarkostnaði. Í nefndarálitinu, sem dregur þetta mjög vel upp, er varað sterklega við þessum áhrifum af skattlagningarhluta bandormsins, það er metið þannig að þau áform sem eru í bandorminum geti leitt til þess að vandinn sem við er að glíma vaxi, þ.e. að aukin skattheimta á núverandi gjaldendur, atvinnulíf og heimili, muni leiða til þess að hallinn sem við er að glíma geti aukist og vandinn vaxi í stað þess að dragi úr honum.

Til að ná fram þeim markmiðum sem þarna eru sett fram — og ég vil undirstrika að þau eru öll góð og gild — eru settar fram ákveðnar áherslur sem ríkisstjórnin hyggst beita sér fyrir og þær eru tvíþættar. Í fyrsta lagi er rætt um að bæta áætlanagerð í ríkisfjármálum og það er raunar umhugsunarefni hvernig að því er staðið. Í öðru lagi er rætt um að auka aga í framkvæmd fjárlaga.

Ég vil geta þess við þessa umræðu að við ræddum á fundi í hv. fjárlaganefnd í morgun tvær skýrslur frá Ríkisendurskoðun. Það var ekki neitt sérstaklega skemmtileg lesning og umræða. Önnur skýrslan laut að fjármálastjórn ráðuneyta og skilum rekstraráætlana — þetta var skýrsla Ríkisendurskoðunar til Alþingis — og þar kemur einfaldlega fram mikil lausung sem við höfum vitað af og rætt hér, a.m.k. þau tvö, þrjú ár sem ég hef setið á Alþingi, að það er allt of mikil lausung í þessari starfsemi ríkisstofnana. Í þessari skýrslu kemur fram að í byrjun maí eru 10 áætlanir enn ósamþykktar í ráðuneytum ríkisins, fjórar í menntamálaráðuneytinu, tvær hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, ein hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu, tvær hjá heilbrigðisráðuneytinu og ein hjá umhverfisráðuneyti. Af 222 samþykktum rekstraráætlunum hafa einungis 179 verið skráðar í svokallað fjárhags- og umsýslukerfi Orra í byrjun maí eða um 81%.

Þessar ábendingar hafa ekki komið fram áður til fjárlaganefndar. Og eftir þá umræðu sem þarna fór fram um þessi lélegu skil og hvort þingið hefði ekki fengið réttar upplýsingar í öllum þessum málum í gegnum tíðina, þá játuðu þeir því aðspurðir, starfsmenn Ríkisendurskoðunar sem þarna mættu. Þetta er í mínum huga mjög alvarleg yfirlýsing frá stofnun sem ætlað er að vera í forsvari fyrir Alþingi við að gæta hagsmuna þess gagnvart stofnunum ríkisins svo Alþingi geti annast það lögbundna hlutverk sitt sem er eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Þetta er til stórrar skammar fyrir allt það starf sem hér er verið að reyna að leggja út í að við getum ekki komið þessu á betri grunn en raun ber vitni hér.

Hitt málið sem ég vildi nefna í ljósi þeirra áforma sem ríkisstjórnin hefur og vill hafa við framkvæmd fjárlaga er mál sem var lagt fram á Alþingi á föstudaginn var og rætt á Alþingi í gær. Það er frumvarp til laga um heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009. Hverjir flytja það? Ekki er það fjármálaráðherra, ekki er það ríkisstjórnin. Nei, það eru fimm þingmenn í efnahags- og skattanefnd, fimm stjórnarliðar sem flytja þetta mál þvert á lög um fjárreiður íslenska ríkisins, þvert á þingsköp, þvert á stjórnarskrá. Ég fullyrði eftir að hafa hlýtt á þá umræðu sem fór fram hér í gær að þessir fimm þingmenn og þar á meðal hv. framsögumaður þessa frumvarps nefndarinnar höfðu ekki hugmynd um hvað þeir voru að leggja fram, ekki græna glóru um það. Við fyrirspurn frá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, þar sem hv. þingmaður spurði til hvers ætti að nýta þá fjármuni sem þarna væri um að ræða, þá upplýsti hv. framsögumaður Helgi Hjörvar það að 250 milljarðar af þessari væntanlegu lántöku væru ætlaðir til að brúa hallarekstur ríkissjóðs.

Fjárlög ríkisins árið 2009 gera ráð fyrir 150 milljarða halla. Ef hallinn á að verða 250 milljarðar eins og kom fram í máli hv. framsögumanns er verið að auka hallann um 140 milljarða. Þetta eru nýjar upplýsingar fyrir þingið sem ég tel í rauninni og get alveg játað hér að ekki er ástæða til að taka alvarlega, ég trúi því ekki að mönnum séu það mislagðar hendur að hallinn á ríkissjóði eigi að ganga svo algjörlega úr böndum frá því sem fjárlög gera ráð fyrir. Hér er um að ræða gríðarlegan misskilning og ber vott um það að viðkomandi framsögumaður hafði ekki græna glóru um það hvað hann var að leggja fyrir Alþingi og það er mjög miður. Þetta gengur, eins og ég segi, gegn öllum ákvæðum laga sem taka til þessara mála og gerir ekkert annað en að auka á lausungina og skapa meiri óreglu um meðferð þeirra þegar við höfum aldrei haft brýnni og meiri þörf fyrir aga í þeim málum en einmitt núna. Þá er grundvallaratriði að við skipum þessum stóru málum með þeim hætti sem ætlað er af hv. Alþingi.

Grundvallaratriðið varðandi þetta mál þegar maður er búinn að leggjast yfir það er að það er ekki skortur á hugmyndum um mögulegar skattahækkanir en það er hins vegar algjör skortur á sýn sem gefur fólki einhverja trú á það að við getum unnið okkur í gegnum þessa erfiðleika. Það er ekki nóg að ræða þetta mál eingöngu út frá því að við getum gert þetta heldur verður að sýna fram á það að unnt sé að komast í gegnum þennan stabba. Það er ekki gerð tilraun til þess í þessari skýrslu en ég vænti þess að fjárlaganefnd muni ná tökum á því verkefni þegar hún fer að vinna með málið.