137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Skipulag umræðunnar er þannig að ef ég ætla að bregðast við og svara einhverju þá geri ég það í andsvörum og hef ekki frekari ræðurétt í umræðunni og það er góðu lagi af minni hálfu þannig að ég mun reyna nýta mér það. Þessi skýrsla um jöfnuð í ríkisfjármálum, ég segi einmitt að hún gefur þá framtíðarsýn, hún sýnir að við getum ráðið við þetta verkefni. Það er mögulegt að ná þessum árangri. Það verður erfitt, við setjum markið mjög hátt, að ná frumjöfnuði strax á árinu 2011, heildarjöfnuði 2013 en það á að vera hægt. Það verður mjög erfitt. Við vitum það allir hv. þingmenn. Að því leyti er hún mjög mikilvæg.

Það að ná tökum á ríkisfjármálunum er mikilvæg forsenda annarra hluta. Við þurfum ekki annað en hugsa þar um vexti, eða hvað? Var ekki beðið eftir því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar kæmu fram, að áform ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum kæmi fram og menn sögðu að það væri ein mikilvæg forsenda þess að sjá inn í framtíðina og aðrir aðilar gætu tekið mið af því hvernig ríkið ætlar að taka á sínum hlutum.

Varðandi samráð við aðra vil ég í fyrsta lagi nefna Bændasamtökin. Þau riðu á vaðið. Þau voru eiginlega á undan stöðugleikasáttmálanum þegar ríki og bændur gerðu samning þar sem bændur tóku á sig umtalsverða skerðingu, sættust á hana, sömdu um hana og samþykktu hana í kosningum. Það má segja að þeir hafi verið á undan, það voru þeir sem leiddu hlaupið, ef svo má að orði komast, og við metum það mikils að bændur enn á ný leggja sitt af mörkum rétt eins og þeir gerðu í þjóðarsáttinni á sínum tíma. Það var fundað með og rætt við samtök aldraðra og öryrkja. Það bjóst enginn við því að þau yrðu ánægð eða sættu sig við skerðingu en það skipti líka máli hvernig hún er gerð, hvernig hún er framkvæmd og að það sé hlustað á þeirra sjónarmið og reynt að útfæra þá hluti á skásta mögulegan hátt.

Varðandi sveitarfélögin endurtek ég það sem ég sagði að það er mjög mikilvægt að ríki og sveitarfélög vinni þessa hluti saman. Sveitarfélögin fá sitt. Það verða gerðar upp húsaleigubótaskuldir. Sveitarfélögin fá í tvennum skilningi tekjur vegna aðgerða sem nú hefur verið gripið til á árinu. Það er annars vegar vegna útgreiðslu séreignarsparnaðar og hins vegar vegna hlutdeildar þeirra í vaxandi ríkissjóðstekjum inn í jöfnunarsjóð.