137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:22]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom því ekki að áðan varðandi framtíðarsýnina sem mér þótti skorta á í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir. Hún tekur til ársins 2013 og ég tel alveg fulla þörf á því að ítreka sjónarmið mitt varðandi þennan skort í þá veru að telja kjark í Íslendinga til að takast á við þau verkefni sem bíða þeirra með þeim hætti að sýna þeim fram á það að sú barátta sem fram undan er næstu þrjú árin muni skila þeim í einhverju betra samfélagi. Við sjáum ekkert annað í þessari skýrslu en að það sé eingöngu ætlunin að djöflast á sama hópnum og skatta hann alveg endalaust út í gegn.

Hæstv. fjármálaráðherra nefndi tillögu og hugmynd sjálfstæðismanna sem hefur verið haldið á lofti um að breyta sköttum á lífeyrisiðgjöld. Það er afgreitt sisvona án þess að menn leggi í þá skoðun og ég heiti á hæstv. fjármálaráðherra að standa við þau orð sem hann gaf mér úr þessum ræðustól um daginn, að skoða þetta í fullri alvöru vegna þess að þetta gefur okkur færi á því að láta heimilin og atvinnureksturinn í landinu ekki líða endalaust fyrir þennan stabba sem við er að glíma. Það er rangt sem kemur fram í skýrslunni þar sem er enn og aftur hjakkað á þeirri staðhæfulausu fullyrðingu að orkufrekur iðnaður og stórfyrirtæki séu ekki mannaflsfrek. Það er lagt út með þeim hætti að þau geti vel borið hærri skatta. Ég nefni þetta vegna þess að það hefur verið sýnt fram á að þessi fyrirtæki greiða sömu skatta og önnur fyrirtæki í landinu. Til dæmis greiddi álverið í Straumsvík hærri tekjuskatt á árinu 2007 en öll fiskvinnslan í landinu. Þjónustukaup þeirra standa undir rekstri fullt af opinberum fyrirtækjum. Það er því rangt að gera þannig að hlutunum að þessi fyrirtæki geti borið hærri gjöld.