137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan eiga orðastað við hv. formann fjárlaganefndar um það hvernig og hverjar hans hugmyndir eru um aukinn aga við framkvæmd fjárlaga.

Eins og kom fram á fundi fjárlaganefndar í morgun er mikill sullukollsháttur á ýmsu sem lýtur að framkvæmd fjárlaga og flestir eru sammála um að það beri að bæta og efla. Þetta er umræða sem oft hefur verið tekin án mikils árangurs. Nú kemur fram í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir að búið er að útfæra sparnaðartillögur í ráðuneytum upp á 1.800 milljarða án þess þær séu komnar inn í fjárlaganefndina. Ég geri þá ráð fyrir því að okkur í hv. fjárlaganefnd sé ætlað að bíða fram á haustið þar til við fáum þessar tillögur og verðum þá að rúlla í gegn einhverjum fjáraukalögum. Meginatriðið er þetta: Hvernig hyggst hv. formaður fjárlaganefndar beita sér fyrir auknum aga í þessum efnum?

Rétt til að fylgja eftir þeirri umræðu sem var hér í fyrra andsvari áðan um launastrúktúr: Hvar í ósköpunum er sú viðmiðun til í löndum sem við berum okkur saman við að launastrúktúrinn í opinbera geiranum sé miðaður við laun forsætisráðherra? Ef upplýsingar liggja um það hjá meiri hluta fjárlaganefndar væri gott að heyra það því að það mundi þá væntanlega hjálpa okkur við að hafa agann og eftirlitið með þeim launastrúktúr sem settur verður upp á grundvelli þessa góða leiðarljóss sem kemur fram í því plaggi sem hér liggur fyrir.