137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:48]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir hans fyrirspurnir og leita um leið eftir liðsinni hans í fjárlaganefndinni sem annars af tveimur sem hafa tveggja ára reynslu í fjárlagagerð við að auka agann og bæta vinnuskipulagið við framkvæmd fjárlaga.

Við lukum lokafjárlögum fyrir árið 2007 með löngu nefndaráliti sem var samþykkt samhljóða af fjárlaganefnd. Það nefndarálit var samið af fyrrverandi fjárlaganefnd, meðal annars hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, og fjallar í meginatriðum um að það þurfi að auka aga. Ég held að við séum alveg sammála um að þetta sé mjög mikilvægt atriði. Þess vegna hafði ég sett í gang vinnu á milli Ríkisendurskoðunar og milli okkar nefndasviðs og þeirra sem koma að fjárlagagerðinni, fjármálaráðuneytisins, um að endurskoða ferlið í heild og þá eftirlitshlutverk þingsins í því samhengi. Ég held að gríðarlega mikilvægt sé að við förum í gegnum þessa vinnu öll saman, fylgjum skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem Árni M. Mathiesen pantaði í janúar síðastliðnum og kom núna og var lögð fram í fjárlaganefnd fyrir stuttu. Hún er í samræmi við eldri skýrslur að mér er sagt frá OECD. Allt þetta hlýtur að kalla á að við tökum þetta alvarlega til endurskoðunar, breytum þessu vinnuferli. Það gerist ekki í haust. En þessi skýrsla er mjög mikilvæg forsenda þess að horfa til lengri tíma. Menn verða að reyna að setja sér ramma og fá svo rammafjárlög til fjögurra ára en það er mjög mikilvæg forsenda fyrir því að geta horft fram á við og beitt þá auknum aga í framhaldinu.

Það sem eftir stendur er svo hvernig hvert ráðuneyti beitir sínar stofnanir aga og hvernig þeir fylgjast með. Þar hafa verið býsna öflugar fjármáladeildir sem hafa kannski ekki alltaf sinnt hlutverki sínu og það þarf auðvitað að fylgja því betur eftir.

Varðandi forsætisráðherrann þá hefði verið áhugaverðara að heyra frá hv. fyrirspyrjanda Kristjáni Þór Júlíussyni hvaða skoðun hann hafi á launakjörunum. Er eðlilegt að það séu margir í þessu samfélagi með mun hærri laun en forsætisráðherra (Forseti hringir.) við þær aðstæður sem nú eru?