137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:55]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson er mér sammála um að hér sé matseðill í skattamálunum og að hér sé vel skilgreint hvert vandamálið sé og markmið sett fram um það hvernig við eigum að ná niður þeim halla sem fyrirsjáanlegur er. Þetta er það umhverfi sem við erum að reyna að kortleggja hér til næstu fimm ára og ég held að það skipti mjög miklu máli að það sé uppi á borðinu.

Hv. þingmaður spyr jafnframt hvað ég telji eðlilegt varðandi tekjuskattinn. Ég skal hafa alla fyrirvara á því hvað varðar endanlega tölu þegar nær dregur. En ég hef haft það viðmið og kom að því áðan í ræðu minni að ég teldi ekkert óeðlilegt að við færum upp í svipaða skattlagningu og var áður sérstaklega varðandi tekjuskatt á einstaklingum. Það var lækkað um 4% á sínum tíma. Við erum búin að taka 1,5% til baka núna um síðustu áramót og það gæti verið að við þyrftum að fara á næstu tveimur árum upp þá um 2,5% til viðbótar. Þetta er svona um það bil það sem ég hef haft í huga og þá með svipuðum hætti gagnvart fyrirtækjunum. Þó verður að fara mjög varlega gagnvart þeim eins og ástandið er núna. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt að þetta er skattlagning á hagnað þannig að það skilar ekki því sama. En aftur á móti skiptir dálitlu máli að þeir sem hafa verulegan afgang skili honum inn í samneysluna eins og hverjir aðrir.

Varðandi þá umræðu sem varð hér um hver raunveruleg niðurstaða er ætla ég ekki að fara í þá deilu. Ég held að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson geti skýrt betur hvernig farið er með efnahag og hvernig farið er með greiðslugrunn, hvernig annars vegar þjóðhagstölur eru og hvernig hins vegar er byggt á greiðslugrunni. Markmiðið er að halda rekstrinum í 153 milljörðum þrátt fyrir að við séum að fá á okkur lækkun á tekjum og aukningu á atvinnuleysisbótum og fleiri breytingar í rekstrinum. Það settum við okkur sem markmið. Það er rétt og það er alls ekkert laumuspil að þarna voru 20 milljarðar sem koma inn í efnahaginn, (Forseti hringir.) sem eru færðir þarna inn í tölurnar. Það væri kannski eðlilegra að fyrrverandi fjárlaganefnd og fyrrverandi varaformaður (Forseti hringir.) fjárlaganefndar skýri það út fyrir hv. þingmanni.