137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo skemmtilegt við þessar tölur þegar verið er að glíma við þær hvernig hægt er að leika sér með þær og fara með þær. Það hefði verið betra ef hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefði byrjað á að segja að á því tímabili sem Sjálfstæðisflokkurinn stýrði þessu landi þá voru skattarnir með ákveðnum hætti. Þeir voru lækkaðir á þenslutímanum, á kolvitlausum tíma, þegar við þurftum á því að halda að hækka skatta til að draga úr þenslu.

Ég er að tala um það núna, af því að við getum ekki notað þau úrræði sem voru notuð á þenslutímanum, að hverfa til baka til sama tíma. Það hefur einhvern veginn dottið inn í fjölmiðla eins og þeir hafi hækkað jafnvel um 42%. Þess vegna kallaði ég fram í og spurði. Það er verið að tala um að hækka í 42%. Ég hef svo sem ekki lagt það saman. Ég held að við séum með 37 komma eitthvað og förum upp í 39. Ég veit ekki alveg hvernig hann kemst upp í 42%.

Hv. þingmaður verður að bera ábyrgð á þeirri tölu. Ég ætlaði með varúð að benda á að við teljum eðlilegt að hverfa til baka til þeirrar (Forseti hringir.) skattlagningar sem var áður en við fórum að lækka á þenslutímanum.