137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[16:16]
Horfa

Valgeir Skagfjörð (Bhr):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og leiðrétta missagnir sem áttu sér stað þegar sá sem hér stendur var í ræðustóli í gær og las yfir tölur. Ég las þær í milljörðum en þær áttu auðvitað að vera í milljónum og leiðréttist hér með. En lokatölurnar, þ.e. útkoman, það var farið rétt með tölurnar þar en það er kannski ekki nema von að manni vefjist tunga um tönn þegar svona upphæðir eru annars vegar eða manni vefjist tunga um höfuð eins og maðurinn sagði.

Ég þakka þessa skýrslu og þær umræður sem hafa átt sér stað sem ég hef fengið að heyra. Ég hef ekki haft tíma til að fara með stækkunargler í gegnum hana enda eru slíkar skýrslur alla jafnan ekki lesefni á náttborðinu hjá mér en starfsins vegna er ég tilneyddur að lesa svona skýrslur þó að þær séu ekki skemmtilesning. Það er auðvitað gott að leggja upp með fögur fyrirheit. Það hafa margir gert í gegnum tíðina og vera annað en bjartsýnn er auðvitað algerlega tilgangslaust. Það er alveg staðreynd og það er algerlega fjarri mínu eðli að vera með svartagallsraus en það veit sá sem allt veit að ekki er hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon öfundsverður af hlutskipti sínu um þessar mundir. Ég óska honum frá innstu hjartarótum góðs gengis á þeirri vegferð sem hann er en ég vil þó nota þetta tækifæri til að gjalda varhuga við því á hvaða vegferð ríkisbúskapurinn er.

Fyrir dyrum standa lántökur upp á hundruð milljarða í því augnamiði að hefja endurreisn samfélags úr rústum bankahrunsins og flest teikn á lofti um það að hér eigi sér stað einhvers konar allsherjarríkisvæðing á öllum sviðum með tilheyrandi miðstýringu, niðurskurði á heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og velferðarkerfi. Þessi áætlun er gerð að undirlagi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem nú um stundir er landstjóri Íslands, enda hefur hæstv. fjármálaráðherra a.m.k. einu sinni svarað því til að ráðstafanir í ríkisfjármálum, samanber bandormurinn sem á eftir að hlykkjast um samfélagið og kroppa í skófir hér og hvar, séu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þóknanlegar.

Eitt stærsta deilumál þjóðarinnar kemur brátt til kasta Alþingis og ef Icesave-samningurinn verður samþykktur og þau lán sem ríkið hyggst taka þá verður um að ræða mestu skuldir ríkissjóðs frá lýðveldisstofnun. Í máli hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar kom fram sú skoðun að þessi skuldasöfnun væri auðvitað óæskileg en nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að reisa landið við eftir að spilavítishagkerfið hafði sett allt á hliðina, heilt samfélag. Gríðarleg aukning erlendra lána hefur sett fjármálakerfið eða landið í efnahagslega spennitreyju og vandséð hvernig og hvort við munum nokkurn tíma losna úr þeirri spennitreyju.

Á árunum 2004–2008 nam skuldsetning annarra en banka 151,2% af vergri landsframleiðslu svo ég fari að fara með tölur enn á ný. Á fjórum árum fór skuldasöfnun úr 48% af vergri landsframleiðslu í 151,2%. Skuldir annarra en banka nema tæplega 2.300 milljörðum kr. Þessi skýrsla tekur ekki mið af skuldum ríkisins vegna Icesave og þess vegna vandséð hvernig marka má framtíðarspár þessara talnaglöggu spekinga sem hafa stundað reikningskúnstir og teiknað upp þessi fallegu línurit. Ég velti þeirri spurningu fyrir mér, frú forseti, hvort stjórnvöld með stórkostlegri ríkisvæðingu á öllum sviðum séu ekki að kalla yfir sig ábyrgð sem er hugsanlega of erfitt að axla og ég velti líka þeirri spurningu fyrir mér hvort t.d. erlendar skuldir gömlu bankanna séu íslensku hagkerfi ef til vill ofviða. Spyr sá sem ekki veit. Ég er ekki gæddur spádómsgáfu en ég óttast það mjög í ljósi þungra vaxtagreiðslna á næstu árum ásamt afborgunum af öllum þeim lánum sem á að taka og uppgreiðslu á öðrum kúlulánum sem hafa verið tekin í fortíðinni og koma til gjalda, þá muni afgangurinn í ríkissjóði varla standa undir þeim greiðslum. Og jafnvel þótt svo kynni að verða þá mundi það þýða hvernig svo sem menn reyna að fegra ástandið eða framtíðarhorfurnar þá mun það leiða til þess, frú forseti, að það þarf að skera niður í þjónustu hins opinbera og þá hugsun vil ég ekki hugsa til enda. Svo má ekki gleyma því að allar afborganir af lánum og vexti þarf að greiða í erlendri mynt.

Miðast þessi skýrsla kannski við að við séum komin inn í ESB fyrir árið 2013 og þar með verði allar skuldirnar afskrifaðar? Í gömlum dægurlagatexta segir, með leyfi forseta:

Mig dreymdi að væri komið árið 2012

þeir tunglið höfðu malbikað og steypt í hólf og gólf.

Já, veröldin var skrýtin og allt var orðið breytt

því vélar unnu störfin og enginn gerði neitt.

Og ekki hafði neitt að gera útvarpsstjóri vor

því yfirmaður hans var gamall vasastransistor,

og þingmennirnir okkar voru „ej med fulde fem“

því forsætisráðherrann var gamall IBM.

Undir einhverjum kringumstæðum hefði ég sungið þetta fyrir ykkur. Það má víða finna að hér hafi einhverjir spádómar ræst og ég tek það fram að ég vona heitt og innilega að spádómar bókhaldaranna í fjármálaráðuneytinu rætist. Það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir allt samfélagið að stækka heildarkökuna sem til skiptanna er og það verður auðvitað ekki gert nema með því að efla atvinnuvegina, með því að auka þátttöku almennings í sköpun og þróun nýrra atvinnugreina og auka þannig skatttekjur ríkisins og skattstofna. Hér erum við að horfa á stórtæka framlengingu á stjarnfræðilega háum víxli sem er ekki í sjónmáli að við getum greitt. Svo spurningin vaknar hvort stjórnvöld sjái það fyrir sér að þessar skuldir verði afskrifaðar þegar við göngum inn í ESB.

Íslensk heimili bera nú þegar þungar byrðar og samkvæmt óráðsíukenningunni skulda heimilin tæpa 1.900 milljarða kr. og þar af eru 16,7% í gengistryggðum lánum. Þessi lán eru að langmestu leyti húsnæðislán, námslán, bílalán o.s.frv., eitthvað sem gerir fólki kleift að tileinka sér vestræna lífsháttu. Og nú ætla stjórnvöld að bæta um betur og leggja á fleiri gjöld, meiri skatta og þyngja þar með byrðarnar enn frekar. Mér sýnist þessi skýrsla ekki taka mikið tillit til þess hve mörg gjaldþrot munu eiga sér stað á næstu mánuðum og hve margt fólk kemur til með að flytja af landi brott. Þar af leiðir að enn færri verða um að greiða til samfélagsins fyrir utan allt annað afleitt tjón sem verður við slíkar aðstæður.

Virðulegur forseti. Það er ekki ætlun mín að vera hér með svartagallsraus og heimsendaspár. Stjórnvöld hafa algerlega séð um heimsendaspárnar enda velti ég mikið fyrir mér leið sem væri hugsanlega til þess fallin að vera innblástur inn í framtíðina, einhver leið sem gæti verið til þess fallin að styrkja tiltrú manna á því að það sé vænlegur kostur að búa áfram á þessu skeri norður í Dumbshafi, með því að leiðrétta vísitölu neysluverðs og reikna gengistryggð lán, t.d. miðað við þá vísitölu sem var í gangi þegar lánin voru tekin og breyta þeim lánum í íslenskar krónur. Slíkar aðgerðir væru til þess fallnar að bæta ástand heimila, bæta ástand fyrirtækja og auka mönnum bjartsýni og blása mönnum baráttuanda í brjóst. Ég vona og það er ósk mín að okkur takist að vinna okkur út úr þessu án þess að þurfa að stefna okkur í þessar gríðarlegu skuldir og við verðum að reyna að fara að huga að einhverjum öðrum lausnum og hugsanlega einhverjum frumlegri lausnum og hugsa eitthvað pínulítið út fyrir boxið okkar. Mér sýnist því miður allt of margir íslenskir stjórnmálamenn vera fastir inni í kassa sem þeir komst ekki út úr og ég óska eftir því að fólk fari að verða víðsýnna því þetta gamaldags karp í þinginu gerir mig bara dapran og það verkar þröngsýnt. Ég auglýsi því eftir víðsýni og bjartsýni og einhverri leið til að blása fólki einhvern baráttuanda í brjóst.