137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[16:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir athyglisverða ræðu. Það var gott að hlusta á hann og það má í rauninni segja að hann hafi líka blásið manni byr í brjóst og ég tek heils hugar undir með honum að það er oft og tíðum sem mætti breyta um vinnubrögð hérna en það er líka margt gott sem hefur gerst á þingi í gegnum tíðina og annað sem hefði betur mátt fara.

Ég er sammála honum í því að við þurfum oft að hugsa út fyrir boxið og sennilega eru einmitt nú þeir tímar sem við þurfum að gera það sem aldrei fyrr. Þess vegna verð ég að segja að ég sakna þess almennt í umræðunni, ekki endilega frá hv. þingmanni heldur almennt í umræðunni og ekki síst í tengslum við stöðugleikasáttmálann, þess sem við sjálfstæðismenn vorum að kalla eftir að reyna að hugsa aðeins út fyrir boxið varðandi fjáröflun fyrir ríkissjóð, hvernig hægt er að hagræða í tekjum ríkissjóðs, í rekstri ríkissjóðs án þess að líta beint til þess að fara beint í að hækka skatta eða skera niður. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann um áherslur okkar sjálfstæðismanna varðandi lífeyrissjóðsgreiðslurnar, þ.e. að skattleggja lífeyrissjóðsgreiðslurnar þegar þær fara inn í sjóðina. Það mundi þýða ríflega 40 milljarða til viðbótar fyrir ríkissjóð á ári sem mundi þá hafa það í för með sér að við þyrftum ekki að fara í jafnmiklar skattahækkanir og raun ber vitni því að ég trúi ekki öðru en að við séum sammála því að það er lamandi hönd á atvinnulífið og líka einstaklingana til að sýna frumkvæði, áræðni og þor til að einmitt byggja eitthvað upp þegar auknir skattar eru lagðir á fyrirtækin og atvinnulífið núna þegar allra síst má við því.

Þess vegna langar mig að spyrja: Hvað segir hann þegar við sjálfstæðismenn sem loksins hugsum aðeins út fyrir boxið, hvað segir hann um þær tillögur okkar í efnahagsmálum?