137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[16:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að í ræðu hv. þingmanns var margt sem kom svolítið á óvart, ekki síst í svari hans núna en ef ég skildi hann rétt, og það verður bara að fagna því, er hann tilbúinn til að styðja það að þjóðin fái að greiða atkvæði um Icesave. En mér finnst svolítið kostulegt þegar hann stendur í þessum stól og talar um Evrópusambandið að við eigum að vera á móti Evrópusambandinu og slíkt en samt er hann í þeim flokki sem hefur gert það að verkum að Alþingi er að ræða um Evrópusambandið. Hann er í forustu fyrir því að við erum að fara að fjalla um Evrópusambandið. Þetta er mjög kostuleg staða sem vinstri grænir eru komnir í og eru búnir að setja sjálfa sig í, vil ég meina.

Mig langar að spyrja hv. þingmann af því að hann hlýtur að vita það, og ég reikna með að hann standi að baki þessari skýrslu, en hæstv. fjármálaráðherra svaraði því ekki áðan: Hvernig er þessi mikla tekjuaukning skýrð? Hvað gerir það að verkum að ríkissjóður fær allt í einu þessar miklu tekjur aðrar en frá skattahækkunum eða á að hækka skatta svona gríðarlega mikið að þeir munu skila þessu öllu?