137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[16:54]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það er afskaplega órólegt í þingsalnum þessar mínúturnar. Það er greinilegt að stórtíðinda er að vænta af blaðamannafundi hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra um Icesave-málið sem er boðaður núna fljótlega skilst mér. En það er ekki tilefni ræðu minnar.

Mig langar aðeins að blanda mér inn í þessa umræðu um skýrslu um efnahagsmál sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu. Hún er í sjálfu sér ágætisupplýsingarit um þá stöðu sem uppi er, ágætisgreining á því sem við stöndum frammi fyrir og þarna eru talnagögn dregin saman með ágætum hætti. Svo langt sem það nær er því þessi skýrsla ágætisinnlegg í þá umræðu sem fram undan er.

Mig langar líka á jákvæðu nótunum að taka undir það sem fram kemur í skýrslunni um áform um að auka aðkomu þingsins að framkvæmd fjárlaga, nokkuð sem hefur mikið verið rætt í hv. fjárlaganefnd um langa hríð, þ.e. að hv. fjárlaganefnd sé betur inni í því hvernig farið er með framkvæmd fjárlaga og svo framvegis. Eins get ég ekki látið hjá líða að nefna það sem stendur svart á hvítu í þessari skýrslu, að Ísland hafi skipað sér á bekk með þeim þjóðum sem leggja hvað mest upp úr félagslegri velferð árum saman og að afkomuöryggi allra þegna landsins sé með ágætum þannig að þessi ríkisstjórn (ÞKG: Það er nýfrjálshyggjan.) sem nú situr ætlar að standa vörð um þá velferð sem hér hefur skapast á liðnum árum undir forsæti þess flokks sem er stöðugt kennt um þetta hrun allt, Sjálfstæðisflokksins. Ég ætla bara í gamni að nefna það vegna þess að það stendur hér svart á hvítu.

Mig langar núna aðeins að víkja að þeim atriðum sem ég vil gagnrýna í skýrslunni. Ég verð að segja alveg eins og er og vitandi að mjög margt er óljóst og óvíst um hvað fram undan er og það hefur margoft komið fram hvað óvissan er mikil og við erum að horfa hérna einungis fjögur ár fram í tímann, en þá er ég engu nær eftir að hafa lesið þessa skýrslu hvaða sýn ríkisstjórnin hefur til lengri tíma á það hvernig eigi að byggja upp þetta land. Stór hluti skýrslunnar fer í að rökstyðja af hverju betra sé að fara í skattahækkanir en draga verulega úr útgjöldum. Skattahækkanir eru boðaðar. Útgjaldalækkun er líka boðuð en forgangsröð er alveg óljós. Allar ákvarðanir sem eru teknar núna munu hafa áhrif mjög langt fram í tímann og það er ekki gerð nein tilraun til að lýsa því í þessari skýrslu hvaða áhrif þessar ákvarðanir munu hafa á framtíð þjóðarinnar.

Mér finnst sú litla stefna sem hægt er að lesa út úr þessari skýrslu kristallast í þessari setningu á blaðsíðu 31. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eins og fram hefur komið setur bágborið ástand efnahagslífsins, atvinnuleysi og erfið staða heimilanna því nokkrar skorður hvað hægt verður að auka tekjuöflun ríkissjóðs mikið a.m.k. fyrst um sinn.“

Þetta er sem sagt annað orð yfir skattahækkanir. Það er grundvallarstefna þessarar ríkisstjórnar að skatta þjóðina út úr þessum vanda og þá spyr maður hverjir eigi að borga þessa skatta. Í skýrslunni er farið afar lauslega yfir það hvaða skattar komi til greina. Útfærsla þessara skattahugmynda er eftir. Ég býst við að við munum sjá betur framan í það í haust. En það liggur í orðanna hljóðan að við eigum von á verulegri hækkun tekjuskatts og ég held að óhætt sé að segja að eignarskattur muni líka verða lagður á, á stóreignafólk eins og þar segir. En við höfum verið að takast á nokkuð um það í dag hverjir hafi háar tekjur og maður getur á sama hátt spurt hverjir eigi stórar eignir eða hvaða skilyrði þessi eignarskattur eigi að uppfylla vegna þess að hinn gamli eignarskattur sem við þekkjum lagðist mjög þungt á eldri borgara og það mun þá væntanlega leggjast ofan á aðrar álögur sem á eldri borgara verða lagðar núna á næstunni.

Mestu tekjurnar sem hægt er að ná út úr þessum sköttum koma væntanlega úr tekjuskattinum. En um leið er þrengt að heimilum í landinu. Það er vitað að hátekjufólkið mun að sjálfsögðu bera meiri byrðar. Það kemur skýrt fram og þegar hafa verið stigin skref í þá átt hér með bandorminum svokallaða. En hátekjufólki hefur farið afar hratt fækkandi undanfarið og það er alveg óljóst hversu margir hafa svo háar tekjur að það muni skila verulega miklu inn í þjóðarbúið fyrir utan það að hátekjufólkið hefur líka — þó kannski megi ekki nefna það — skuldsett sig gríðarlega mikið og mér er spurn hversu mikið það fólk getur borið af því öllu sem ætlast er til að það beri í þessari skattstefnu. Þess vegna er full ástæða til að óttast þessar skattahugmyndir. Þessir skattar munu draga þrótt úr fjölskyldum og það er alveg ljóst að þeir munu draga verulegan þrótt úr þeim fáu fyrirtækjum sem eru í sæmilegu lagi hérna, hvað þá að það auki bjartsýni manna um að ný sprotafyrirtæki verði stofnuð.

Hér hafa verið ræddar í dag ýmsar hugmyndir um hvernig hægt sé að auka og stækka kökuna af hálfu stjórnarandstöðunnar. Menn hafa bent á að við þurfum að líta til nýrra tækifæra. En til að hægt sé að stofna ný fyrirtæki um nýjar hugmyndir þá má ekki vera fyrir fram búið að gera þeim ókleift að starfa eins og er með þessum skattahugmyndum sem hér eru. Það er ekkert í þessari skýrslu um það hvernig eigi að stuðla að frekari nýsköpun og þróun. Það er ekkert talað um á hvaða grunni við ætlum að reisa þetta þjóðfélag aftur við. Það er í nokkrum setningum talað um atvinnulíf í landinu og það er skautað léttilega fram hjá því að það þarf væntanlega að líta til auðlindanýtingar, nokkurs sem hluti ríkisstjórnarinnar er mjög andsnúin en verður, því miður virðist vera að þeirra mati, óumflýjanlegt að fara í. En það er líka svo margt annað sem hægt er að gera, svo margar aðrar hugmyndir hægt að nýta. En það eru engar hugmyndir í þessari skýrslu, ekki nokkur skapaður hlutur af hálfu þessarar ríkisstjórnar um það hvernig hægt sé að auka möguleika Íslendinga til að skapa tekjur. Og á þeim tímum sem nú eru, vitandi það að skuldir ríkissjóðs hækka dag frá degi — síðast í gær var hv. efnahags- og skattanefnd að boða frekari lántöku af hálfu ríkisins, 290 milljarða kr. Það var bara í gær. Kannski kemur meira á morgun. Við vitum ekkert um það. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Indriða H. Þorlákssyni að það verði væntanlega að endursemja um hluta þeirra lána sem voru tekin vegna þess að auka þurfti gjaldeyrisforðann vegna þess að Íslendingar geta ekki staðið undir þessum lánum, þ.e. 250 milljörðum að mig minnir. Hvernig ætla menn þá á sama tíma að auka skuldir þjóðarinnar í erlendri mynt stórkostlega, ég tala nú ekki um þessar Icesave-skuldbindingar sem nú eru væntanlega til umræðu á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar? Við vitum ekkert hvað það mun verða mikið. Það eru engar hugmyndir uppi um það hvaðan þær tekjur munu koma sem eiga að standa undir þessum skuldbindingum. Þetta er allt saman í erlendri mynt. Á sama tíma er engin tilraun gerð til þess að auka tekjur ríkisins í erlendri mynt og ekkert í þessari skýrslu fjallar um það. Mér finnst afskaplega hæpið af hálfu ríkisstjórnarinnar að koma fram svona. Ég held að það geti ekki gengið að á sama tíma og ætlast er til þess af þingmönnum að þeir staðfesti gríðarlegar byrðar á komandi kynslóðir bæði vegna erlendrar skuldasöfnunar og stórkostlegra skattahækkana á okkar komandi kynslóðir og fyrirtæki í landinu, að þá bendi ekkert, ekki neitt, til þess að við munum geta aflað tekna til að standa undir þessu. Þetta hefði ég viljað sjá í þessari skýrslu. Þess vegna held ég að þó það sé gott, eins og ég sagði áðan, að fá svona stöðuskýrslu svokallaða að það verði að fara að horfa miklu lengra fram í tímann.

Það er alltaf verið að tala um þetta sjö ára skjól, að við fáum sjö ára skjól til að koma okkur út úr þessum vanda. Gott og vel. Við skulum sjá, við skulum sjá hvernig það gengur. En þær skuldir sem við höfum þegar stofnað til munu ekki hverfa á þessum sjö árum. Þær munu alls ekki gera það. Ef áfram er haldið á þessum óljósu nótum, með skattpíningarstefnu og án þess að nokkur tilraun sé gerð til að auka tekjuflæði í þjóðfélaginu þá gerist ekkert annað en að skuldirnar munu aukast og við munum lenda í enn þá meiri vanda en við stöndum frammi fyrir núna og þá mun ekki bjarga okkur að hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu þó ég haldi að sumir telji að það muni gera mikið í þessu. Það mun ekki gera það, fyrir utan að mér er til efs að það verði auðvelt að semja við Evrópusambandið undir þeim skuldaklafa sem íslenska ríkið er nú komið í. Mér er það mjög til efs að það verði mjög þægilegt samningaferli. En við skulum sjá hvað út úr því kemur.

Mig langar rétt í lokin — tíminn er afar knappur — að nefna þær framkvæmdir sem fram undan eru. Mig langar að spyrja — ég vona að við munum fá upplýsingar um það í fjárlaganefnd þangað sem þessi skýrsla mun rata — hvaða framkvæmdir séu svo mannaflsfrekar að þær skipta máli fyrir atvinnulífið í þessu landi. Eru það samgönguframkvæmdir af ýmsum toga? Eru það mannvirkjaframkvæmdir? Eru það veituframkvæmdir? Hvaða framkvæmdir eru þannig að það skiptir verulegu máli fyrir ríkið að fara í þær? Ég vonast til að það komi betur fram þegar við tökum málið fyrir (Forseti hringir.) í hv. fjárlaganefnd.