137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:05]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það vantar afskaplega margt í þessa skýrslu. Ég minntist stuttlega á það í mínu máli og ekki síst þær erlendu skuldbindingar í erlendri mynt, þ.e. þær sem munu leggjast á þjóðina á komandi árum og sér í lagi þær sem munu væntanlega leggjast á áttunda árið héðan í frá eða svokallaðar Icesave-skuldbindingar.

Hins vegar er þessi skýrsla svo langt sem hún nær ágætisupplýsingarit um það að sú ríkisstjórn sem hér situr hefur bara eina hugmynd um það hvernig hægt er að koma sér út úr aðsteðjandi vanda. Hún er sú að hækka skatta, hún er sú að auka skattbyrðar og hún er sú að auka álögur á fólk sem hefur ekki þær tekjur sem ríkisstjórnin heldur að það hafi og á þau fyrirtæki sem eru þegar öll meira og minna farin á hausinn og að tryggja það að engin ný fyrirtæki komist á lappirnar vegna þess að hér er komið þvílíkt skattpíningarsamfélag að þar verður engu eirt.